Ásgeir Pétursson opnar sýninguna ICESCAPES á fyrstu hæð í Hörpu, föstudaginn 13. október, kl. 17.00. Sýningin er hluti af ráðstefnunni Arctic Circle sem haldin er í Hörpu dagana 12. til 15. október en þar er fjallað um málefni norðurslóða út frá ýmsum hliðum.
Á sýningunni verða tuttugu stórar myndir frá Grænlandi sem allar sýna ís í einu eða öðru formi. Markmið sýningarinnar er að sýna glæsilega náttúru Grænlands, en á sama tíma fjallar hún um loftslagsbreytingarnar. Allar myndirnar eru til sölu.
Um tilurð þessa verkefnis segir Ásgeir:
„Ég hef unnið að þessari sýningu undanfarin þrjú ár, mest á því tímabili sem ég bjó í Grænlandi. Myndirnar í seríunni hafa verið teknar í ferðalögum mínum á vesturströnd Grænlands, frá Nanortalik í suðri til Uummannaq í norðri.
Hugmyndin að því að gera þessa sýningu kviknaði þegar ég stóð með grænlenskri fjölskyldu fyrir framan skriðjökul sem er að hverfa. Ég hlustaði á þau lýsa því hvað jökullinn hefði verið miklu stærri og náð langt útí sjó sex árum áður þegar þau höfðu verið þarna seinast. Þau voru í svolitlu áfalli að sjá hve mikil breyting hafði orðið á þessum tíma. Þarna áttaði ég mig á því hvað bráðnunin er að gerast hratt.“
Ásgeir er nemandi á öðru ári í Ljósmyndaskólanum og við óskum honum hjartanlega til hamingju með sýninguna.
Fleiri verk Ásgeirs, meðal annars fleiri myndir frá Grænlandi, má sjá hér og tengil á viðburð hér.
/sr.