Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir tekur þátt í beinni útsendingu 19.febrúar.

aa

Gunnlöð útskrifaðist úr Ljósmyndaskólanum árið 2018 af Námsbraut í skapandi ljósmyndun 2.

Hún hefur síðan þá stundað framhaldsnám í ljósmyndun á Spáni og starfar við ljósmyndun.

Gunnlöð tekur þátt í beinni útsendingu frá Ljósmyndaskólanum föstudaginn þann 19. febrúar. Hún mun þar segja frá sér, lífinu eftir Ljósmyndaskólann og fleiru.

Vil báðum Gunnlöðu að senda okkur myndir af nýlegum verkum og að segja aðeins frá þeim. Hér á eftir fylgja myndir og texti frá Gunnlöðu.

Óljós nærvera

Myndin er úr verkinu Óljós nærvera (Obscure Presence). Verkið byggir á sönnum sögum nútíma Íslendinga af draugum og öðrum yfirnáttúrulegum verum. Hver mynd hefur misjafna þýðingu og mismikil tengsl við sögurnar en saman segja myndirnar nokkrar sögur. Verkið var upprunalega útskriftarverkið mitt úr mastersnáminu mínu en ég hef síðan bætt við það og sýnt aftur á Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Ég gæti vel hugsað mér að halda áfram, bætt við myndum, eða jafnvel gera bókverk. 

Kvíðakolla

Myndin er úr verki sem heitir Kvíðakolla og varð það til í sumar. Nafnið byggir á misskilningi hjá barni sem ég var að kenna síðasta vetur. Hún var að segja mér frá tilhlökkun sinni fyrir sumrinu og biðukollum en sagði alltaf kvíðakolla. Mér fannst það svo fallegt orð svo ég lagði það á minnið. Þegar loks kom að sumrinu fékk ég mikinn kvíða og leið almennt ekki nógu vel. Ég hugsaði þá til kvíðakollunar og ákvað að gera verk út frá eigin tilfinningum og vísa í þetta fallega orð. Í hvert skipti sem ég fór uppí stúdíó að vinna myndaði ég eigin líðan með sjálfsmyndum. Þetta er því mynd úr einskonar dagbókarverki. Ég er enn að mynda dagbók – og aldrei að vita nema að þetta verk verði einn daginn stærra. 

@gunnlod.jona

www.gunnlodjona.com

/sr.