Á dögunum birtist áhugaverð umfjöllun á vefnum Refinery29 sem unnin var af ljósmyndaranum Helgu Nínu Aas. Viðfangsefnið var íslenskar konur og hugmyndir þeirra um kvenlíkamann.
Helga Nína tók myndir af nokkrum íslenskum konum í sundfötum í heitum laugum og með mynd af hverri konu birtist texti þar sem hún segir frá afstöðu sinni til eigin líkama, viðhorfi sínu til líkama annarra kvenna og til líkamsímyndar almennt. Konurnar eru ólíkar, á ýmsum aldri en eiga það sammerkt að vera stoltar af eigin líkama.
Ein þeirra kvenna sem Helga Nína myndaði var ljósmyndarinn Ellen, 34 ára. Ellen segist reyna að hugsa ekki of mikið um það sem aðrir segja um hana sérstaklega ef það er neikvætt. Hún tekur aldrinum vel og hugsar um ör og slit á líkamanum eins og minjagripi. Hún segist forðast að tala um líkama annarra kvenna. „Við erum í öllum stærðum og gerðum og það gerir okkur sérstakar,“ segir Ellen meðal annars við Helgu Nínu. Hún nefnir einnig að móðir hennar hafi verið henni sterk fyrirmynd þegar kemur að viðhorfi til líkamsímyndar.
Tíðindakona bloggsins sló á þráðinn til Helgu Nínu og spurði hvernig þetta hefði komið til:
Helga Nína: Þessi kona frá Refinery29, Amanda Gorence sem er „photoeditor“ þar, hafði nú bara upp á mér og bað mig um að taka þetta að mér. Þessi grein er hluti af verkefni sem þau eru með sem er einhverskonar rannsókn á líkamsímynd kvenna í mismunandi löndum og ljósmyndararnir eru allt konur. Verkefnið kallast Take back the Beach og má á vefnum hjá Refinery29 sjá þætti frá fleiri löndum. Verður áhugavert að bera niðurstöðurnar saman þegar þetta er komið hjá þeim.
Hafði hún þá upp á þér í gegnum heimasíðuna eða?
Helga Nína: Já veit það svosem ekki beint, held kannski í gegnum Instagramið mitt. Ég hef póstað nokkuð markvisst þangað inn myndum úr þeim verkefnum sem ég hef verið að vinna. Póstaði einni mynd á dag í fjóra mánuði til dæmis og held að það hafi skilað sér meðal annars í þessu verkefni. Held að það sé mjög, mjög mikilvægt að halda aðskildu því persónulega og verkefnunum sem þú ert að vinna að sem ljósmyndari þegar að kemur að samfélagsmiðlum eins og Instagraminu. Mikilvægt að pósta ekki öllu í belg og biðu.
Nú heyrði ég að eitthvað af þessum myndum færu á sýningu í New York í haust?
Helga Nína: Jú það er rétt en ég get ekki sagt neitt meira um það að svo stöddu en að það stendur til að allavega þrjár þeirra fari á sýningu undir merkjum Photoville í september. Sýningin ber yfirskriftina BODY TALK og verða myndir þar héðan og þaðan úr heiminum úr þessu verkefni. Þar verður meðal annars áherslan á að sýna menningarlegan mun á líkamsvitund. Verður spennandi að sjá hvernig það kemur út.
Talsvert hefur verið fjallað um greinina á Refinery29 í íslenskum fjölmiðlum, meðal annars á Vísi og í Morgunblaðinu.
Hér má lesa greinina í heild sinni og þar kemur meðal annars þetta fram: „Aas’ work is featured in Body Talk, a photo exhibit presented by Refinery29 on display at this year’s Photoville, which runs September 13-24. Body Talk explores the cultural variations of body positivity and the act of claiming space both across the gender spectrum and the globe, captured through the lens of female photographers.
Photoville is the largest annual photo event in New York City built from repurposed shipping containers, combining over 75 exhibitions, nighttime events, workshops and panels in Brooklyn Bridge Park.“ Nánari upplýsingar um sýninguna má svo fá á vef Photoville.
Helga Nína útskrifaðist úr Ljósmyndaskólanum í janúar 2015 og hefur síðan þá unnið ötullega við áframhaldandi skrásetningu á 101 shopkeepers og fleiri verkefnum eins og sjá má á heimasíðu hennar.
Myndirnar eru skjáskot af vef Refinery29
/sr.