Mynd mánaðarins úr myndaröð Ellenar Ingu Hannesdóttur – “Sagan af Paradís”// “The Fall from Paradise”

aa

Mynd mánaðarins er að þessu sinni úr myndaröð Ellenar Ingu Hannesdóttur “Sagan af paradís” // “The Fall from Paradise” Myndaröðin er lokaverkefni hennar við Ljósmyndakólann. Ellen er ein af 10 nemendum sem útskrifast frá skólanum nú í lok janúarmánaðar.

Í texta í sýningarskrá skrifar Jón Proppé meðal annars þetta um verk Ellenar: “Mikilvægasta vandamál okkar tíma snýr að því hvernig við munum takast á við umhverfisvandann sem við höfum sjálf skapað. Ríkisstjórnir þrátta og alþjóðlegar stofnanir virðast standa ráðþrota gagnvart ógninni, og það er kominn tími til að við tökum sjálf ábyrgð á okkar þætti í þróuninni. Ellen Inga hefur dregið vandann upp í ljósmyndaröðum sem sýna hlutdeild hvers Íslendings: Fjölda þeirra birkitrjáa sem hvert okkar þarf að planta til að jafna kolefnislosun þjóðarinnar, plastið sem við köstum frá okkur og matinn sem við sóum. Við erum kannski vön að sjá svona úttekt í ópersónulegum töflum í dagblöðum en Ellen Inga sýnir okkur hverja einustu trjáplöntu, hvern plastpoka og eplin sem eru ígildi matarins sem við hendum, samtals 52,5 epli á mánuði (úr einu er búið að taka bita sem kannski minnir okkur á syndafallið). Þetta snýst ekki bara um töflur og tölur. Til að jafna út kolefnislosunina þarf hver Íslendingur að planta 193 birkitrjám á mánuði. Fjöldi plastpokanna er yfirþyrmandi. Með því að mynda hvern fyrir sig undirstrikar Ellen Inga skilaboðin á eftirminnilegan hátt: Vandamálið er ekki fjarlægt eða ópersónulegt heldur horfumst við, hvert og eitt okkar, í augu við það hér og nú.”

Myndir úr þessari seríu Ellenar prýða auglýsingar fyrir sýninguna sem og  forsíðu sýningarskrár.

Fleiri verk Ellenar má sjá hér á heimasíðunni undir nemendaverk og á heimasíðu hennar: http://www.elleninga.com

/sr