Olga sýnir á Vopnaskaki 29. júní til 3. júlí 2016

aa

Það er gaman að segja frá því að Olga Helgadóttir verður með sýningu á Vopnaskaki en það er bæjarhátið Vopnfirðinga sem stendur dagana 29. júní – 3. júlí.  http://www.vopnafjardarhreppur.is/Frettir/nanar/28597/vopnaskak-2016-hefst-midvikudaginn-29-juni.   Olga er ættuð frá Vopnafirði.

Sýningin verður í safnaðarheimilinu við Vopnafjarðarkirkju og  opnar þann 29. júní kl. 16.00 og verður opin til kl 18.00 þann dag.

Aðra daga hátíðarinnar verður sýningin opin kl. 15.00-17.00.

Þarna sýnir Olga útskriftarverkefni sín frá Ljósmyndakólanum; seríurnar; Út að leika og Mamma en einnig mun hún sýna nýleg portrett.

Jón Proppé listfræðingur ritaði þetta um myndaraðir Olgu í sýningarskrá útskriftarhópsins nú í janúar:

“Olga sýnir tvær ljósmyndaraðir sem virðast við fyrstu sýn ótengdar. Þegar við hugum nánar að sjáum við myndir hennar og myndskeið af börnum að leik í náttúrunni og sársaukafylltar myndir hennar af móður sinni í baráttu við ólæknandi hrörnunarsjúkdóm mynda samfellda og vægðarlausa könnun á lífinu og þeim tilvistarspurningum sem hvert okkar þarf að svara. Í myndum hennar af móður sinni sjáum við hvernig sjúkdómurinn tekur yfir líf hennar en við sjáum líka hlýtt brosið lýsa upp andlit hennar þegar litla barnabarnið kemur í heimsókn. Um leið og við skoðum síðustu myndirnar þar sem móðirin er látin og rúmið hennar stendur loks autt, skynjum við hvernig framtíðin er að verða til í leikjum barnanna. Hér höfum við hringrás lífsins sem er bæði harmræn og full af von. Óbætanlegur missir vegur salt við loforð um nýjar kynslóðir.“ Jón Proppé listfræðingur.

 

_H8B9310  _H8B2195  _H8B5887  _H8B1637 _H8B7610

_H8B1026

Meira er hægt að sjá af verkum Olgu á síðunni hennar: http://olgahelga.is/

/sr.