Nýverið luku nemendur á 2. ári í Ljósmyndaskólanum vinnustofunni Landslag er ferðalag en þar unnu þeir undir leiðsögn ljósmyndarans Friðgeirs Helgasonar. Á meðan á vinnustofunni stóð fóru nemendur í vettvangsferðir og leiðangra með Friðgeiri og gerðu ýmsar tilraunir með ljósmyndamiðilinn.
Verkefni Mónu Leu úr þessari vinnustofu með Friðgeiri, heitir NORMA. Móna Lea segir eftirfarandi um verkið: Verkefnið mitt er óður til tíkarinnar minnar hennar Normu sem þurfti að fá nýtt heimili fyrr á þessu ári vegna ofnæmis dóttur minnar.
Við vorum vanar að fara útum allt saman, við Norma. Það er varla blettur í kringum Grindavík sem við höfum ekki snert en eftir að hún fór hef ég forðast að fara á flest alla þessa staði.
Mér finnst ég eiga þessa staði. Þetta eru staðirnir okkar Normu. Staðirnir eru Norma.






