Styrkur veittur úr minningasjóði Magnúsar Ólafssonar. Til hamingju Agnieszka!
Það var hún Agnieszka okkar Sosnowska sem að þessu sinni hlaut verðlaun að upphæð 400.000, úr Minningarsjóði Magnúsar Ólafssonar ljósmyndara (1862-1937). Var hún hlutskörpust þeirra sem þátt tóku í Ljósmyndarýni á Ljósmyndahátíð Íslands sem haldin var dagana 14.-16. janúar.
Agnieszka Sosnowska er fædd í Varsjá í Póllandi og býr og starfar á Kleppjárnsstöðum í Hróarstungu á Héraði . Hún er einnig einn kennara við Ljósmyndaskólann. Agnieszka er með B.F.A. gráðu í ljósmyndun frá Massachusetts College of Art og M.F.A. gráðu frá Boston University.
“Verk Agnieszku hafa verið sýnd víða á Íslandi, í Póllandi og Bandaríkjunum. Síðastliðið sumar tók Agnieszka þátt í samsýningunni Verksummerki sem sýnd var í Ljósmyndasafni Reykjavíkur en sú sýning var hluti af dagskrá Listahátíðar. Einnig má nefna einkasýningar hennar í Lancaster Museum of Art í Pennsylvaníu og Pleiades Gallery of Art í New York.
Agnieszka hefur gert fjölda sjálfsmynda síðastliðin 25 ár en hún hóf að taka sjálfsmyndir á námsárum sínum í Massachusetts College of Art 1997–1999. Agnieszka notar sjálfsmyndir sínar til að öðlast aukinn skilning á sjálfri sér, tilfinningum sínum og væntingum. Myndir hennar eru leikrænar og tjáningarfullar frásagnir og skrásetning á nærumhverfi hennar á Íslandi, Póllandi og Bandaríkjunum.”
http://reykjavik.is/frettir/minningarsjodur-magnusar-olafssonar-veitir-verdlaun-i-ljosmyndaryni
/sr.