Bára Kristinsdóttir – Allt eitthvað sögulegt Í Hafnarborg.

aa

 

Bára Kristinsdóttir,  Allt eitthvað sögulegt í Hafnarborg til 21. október 2018. 

Hver hlutur á sér sögu. Skrúfan, snaginn, slitinn stóll – allt á sér sögu… Hlutir sem við höfum í kringum okkur en veitum sjaldnast eftirtekt, snaginn sem við hengjum úlpuna á, álgjarðir fyrir ruslapokana. Við sjáum þá varla, samt hafa þeir hlutverk, þeir skipta máli. Og einhver hefur smíðað þessa hluti, lagt alúð og vinnu í þá. Sá sem smíðar þá skiptir máli, hann á sér sögu. Og einhver verður að segja sögu þess sem smíðar hlutina. Því allt verður að leita jafnvægis…

Myndirnar tók Bára á verkstæðinu Næl0nhúðun í Garðabæ og hún segir meðal annars þetta: Myndirnar eru jarðteikn um horfinn heim sem ég fékk að kynnast fyrir tilviljun árið 2013 og heimsækja af og til í þrjú ár. Ég byrjaði á verkefninu 23. september 2013 og  tók fyrstu myndina kl. 11.43. Það átti síðan eftir að verða vani minn að kíkja á þá Elías og Baldvin í kringum hádegið næsta árið og reyndar áfram á Elías eftir að verkstæðisreksturinn hætti, því þótt verkstæðið væri farið þá hafði Elías ennþá eldhúsið og skrifstofuna sína og kom á hverjum degi í allavega eitt ár þangað til að húsnæðið var leigt öðrum.

Í kynningarefni fyrir sýninguna segir meðal annars þetta á vef Hafnarborgar.

Bára bregður upp næmri og heillandi mynd af heimi sem er að hverfa. Ljósmyndir hennar gefa innsýn í líf tveggja eldri manna á nælonhúðunarverkstæði í útjaðri Reykjavíkur þar sem tíminn hefur staðið í stað. Á árum áður var þetta fjölmennur vinnustaður þar sem reksturinn blómstraði og unnið var handvirkt upp á gamla mátann. En með nútímatækni kom að því að handbragð þeirra var ekki lengur eftirsótt og fyrirtækið laut í lægra haldi fyrir kínverskri verksmiðjuframleiðslu sem yfirtekið hefur markaðinn.

Samhliða opnun á sýningunni  í Hafnarborg kom út bókin Allt eitthvað sögulegt og þar eru, auk myndanna, brot úr samtölum Báru og Elíasar og hugleiðingar um lífið, tímann sem líður og það að öllu á eftir að ljúka – það er hin óumflýjanlega staðreynd tilvistarinnar.

Bára lærði ljósmyndun í Gautaborg. Hún hefur sýnt á einkasýningum og tekið þátt í fjölda samsýninga bæði á Íslandi og erlendis. Má hér nefna einkasýningarnar Heitir reitir í Ljósmyndasafni Reykjavíkur og Umhverfi bróður míns í Gallerí Anima. Bára hefur einnig unnið sem auglýsinga- og fréttaljósmyndari í gegnum tíðina og myndar meðal annars reglulega fyrir The New York Times. Hún er stofnfélagi Félags íslenskra samtímaljósmyndara, FÍSL og rekur Ramskram, sýningarrými fyrir samtímaljósmyndun á Njálsgötu 49 í Reykjavík.

Sunnudaginn 23. september kl. 14 verður Bára Kristinsdóttir með listamannsspjall í tengslum við sýningu sína Allt eitthvað sögulegt í Hafnarborg.  Bókin,  Allt eitthvað sögulegt, fæst í safnbúð Hafnarborgar en þar fæst einnig fjöldi  annarra listaverkabóka og sýningarskráa.

 

 

/sr.