Björn Árnason: Mikilvægt að gefa sér svigrúm til þess að gera það sem hugurinn stendur til.

aa

Mikilvægt að gefa sér svigrúm til þess að gera það sem hugurinn stendur til

Björn Árnason útskrifaðist úr Ljósmyndaskólanum árið 2012 og hefur síðan þá unnið við ýmiskonar ljósmyndun en hefur allaf lagt mikla áherslu á eigin listsköpun og tekið þátt í sýningum víða. Nú síðast samsýningu í CENTRO FOTOGRÁFICO MANUEL ÁLVAREZ BRAVO í Oaxaca í Mexíkó en þar var sett upp sýning til heiðurs listakonunni Mary Ellen Mark. Björn er í FÍSL, félagi íslenskra samtímaljósmyndara.

Nú veit ég að þú vannst með Mary Ellen Mark. Hvernig kom það til ?

„Þegar Mary Ellen og Einar Falur voru að undirbúa fyrsta „workshopið“ eða vinnustofuna sem þau héldu saman hér í Reykjavík, þá hafði Einar Falur samband við mig og bað mig um að aðstoða hana. Ég hafði unnið lengi í Ljósmyndavörum og verið þar yfir „labinu “ að meðhöndla filmur og svoleiðis. Hana vantaði einhvern aðstoðarmann sem kunni slíkt og að þræða filmur fyrir „medium format“ vélar og allt það. Ég var svo aðstoðarmaður hennar í þessari vinnustofu en líka í öðru verkefni, því Mary Ellen var í tökum upp í Reykjadal. Ég kynntist henni og vinnubrögðum hennar mjög vel.“

Breytti hún sýn þinni á ljósmyndun?

„Já hún breytti rosa miklu fyrir mig bara almennt séð og kannski ekki síst það að fá að fylgjast með henni vinna. Við fórum upp í Reykjadal kl 8.30 á morgnana og vorum að til fjögur eða fimm á daginn … svona gekk þetta í viku eða svo og þá hugsaði ég, nú hlýtur hún að vera komin með þetta en við héldum áfram og fórum aftur og aftur og tókum meira. Það að fylgjast með þessu ferli var mjög lærdómsríkt. Mikilvægt að læra að það að fara aftur og aftur á sama staðinn verður til þess að maður sér hlutina öðruvísi. Í þessu tilfelli varð það til þess að börnin fóru að taka okkur öðruvísi, við urðum partur af umhverfi þeirra og þá fóru hlutirnir að gerast og Mary Ellen náði allt öðrum myndum en í byrjun. Þetta var líka eitt af þeim atriðum sem hún lagði áherslu á í vinnustofum sínum, að fara aftur og aftur og taka meira. Ég fór seinna á tvær vinnustofur hjá henni úti í Mexíkó. Hún var mjög hvetjandi og dugleg að ýta mér áfram og það hjálpaði mér mjög mikið.“

Þessi samsýning út í Mexíkó hvernig kom hún til?

„Fyrir um ári síðan vorum við, nokkrir nánir vinir Mary Ellen sem öll höfðum verið á vinnustofum hjá henni, stödd þarna úti í Oaxaca í Mexíkó á minningarathöfn um hana. Við það tilefni var meðal annars settur upp minnisvarði við Bravo Centro, ljósmyndafnið þar sem vinnustofurnar hennar voru haldnar. Í þessari ferð kom þetta til, að okkur var boðið að koma að ári með verk á samsýningu í safninu. Fyrir utan myndir eftir okkur sjömenningana voru þarna líka sýndar myndir eftir Mary Ellen sjálfa. Þetta var afskaplega gaman, mikill heiður og sýningunni var afar vel tekið.“

Nú voru þetta allt frekar ólíkir ljósmyndarar sem áttu verk á sýningunni og ekki beint hægt að segja að verk ykkar Mary Ellen séu lík.

„Það er satt, við erum mjög ólík en hún var svo dugleg í því að hvetja fólk áfram á þess eigin forsendum. Ég var til dæmis búinn að temja mér ákveðinn stíl í ljósmyndun frekar snemma, þó hann þróaðist auðvitað. Áður en ég fór á fyrstu vinnustofuna hjá henni þá var nánast aldrei neitt fólk í myndunum hjá mér. Þegar ég var á leiðinni til Mexíkó í fyrsta sinn, velti ég mikið fyrir mér hvað ég ætlaði að gera. Hugsaði með mér að það væri best að vera opinn og tilbúinn að prufa eitthvað nýtt … taka myndir af fólki þó ég væri alls ekki að fara að breyta um stíl. Það fyrsta sem Mary Ellen sagði við mig var að ég ætti einmitt alls ekki að breyta þeim stíl sem ég var búinn að tileinka mér. Hún var mjög hörð á því og sagði að ég ætti að geta fundið leið til að setja fólk inn í þessar mínímalísku myndir mínar. Þegar hún var að velja úr tökum með mér þá tók hún alveg miskunnarlaust út þær myndir sem henni fundust ekki falla nógu að því sem henni fannst vera minn stíll. Mary Ellen var mjög hvetjandi og ég held ég hafi aldrei kynnst kennara sem náði svona miklu út úr nemendum sínum. Það er ótrúlega mikilvægt að hafa átt hana að sem kennara.“

Hvað er ljósmyndun fyrir þér?

„Hún er fyrst og fremst útrás, svolítið eins og hugleiðsla að fara einn og taka myndir, það hreinsar hugann. Ef ég kemst ekki til að mynda mitt þá verð ég bara þunglyndur og leiðinlegur.“

/sr.