Byrjendanámskeið – markmiðið að fólk geti raunverulega byrjað að skapa sínar eigin myndir.

aa

Ellen Inga Hannesdóttir og Þórunn Birna Þorvaldsóttir eru leiðbeinendur á ljósmyndanámskeiðum fyrir byrjendur sem haldin eru reglulega á vegum Ljósmyndaskólans. Þær útskrifuðust úr Ljósmyndaskólanum árið 2016 og hafa síðan unnið við ljósmyndun og ljósmyndatengd verkefni.

Við hittum þær að máli, spurðum út í námskeiðið, hvað annað þær eru að fást við og af hverju ljósmyndun er mikilvæg.

Byrjendanámskeiðin, segið mér aðeins frá þeim.

Þórunn:  Já, Við höfum verið að kenna þessi byrjendanámskeið og erum núna búnar að kenna tíu námskeið, það gera  eitthvað rúmlega 100 nemendur sem við höfum haft. Það er nú dálítill fjöldi. Ég var pínu hrædd við þetta fyrst, að kenna. Það er mikil tækni þegar þú ert að byrja í ljósmyndun, að læra á myndavélina og svoleiðs getur verið svona pínu flókið, þetta er annað tungumál. En það kom mér á óvart hvað þetta er ógeðslega gaman. Það er svo gaman að kenna.

Ellen: Já,  segi það sama, það er reglulega gefandi að kenna öðrum.

Þórunn: Við erum búnar að vera með ólíka hópa á þessum námskeiðum en allir eiga þeir það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á því sem við erum að kenna. Gaman að sjá fólk koma með græju sem það kann ekki á, hefur kannski bara verið að nota „auto“ takkann á myndavélinni sinni. En markmiðið með námskeiðinu nú er einmitt að koma fólki af „auto“ takkanum og yfir í „manual“, þannig að það geti raunverulega byrjað að skapa sínar eigin myndir. Við gefum svo tvö heimaverkefni á námskeiðinu og þau eiga að vinna í seríum. Okkur finnst koma rosalega mikið út úr því, fólk fer að hugsa einhvernvegin öðruvísi. Það er eiginlega alveg stórkostlegt að sjá í þriðja tímanum þegar þau skila inn verkefnunum sínum hvað margir eru með flottar myndir.

Ellen: Já, fólk er skiljanlega dálítið ruglað þegar við erum að byrja námskeiðið, en svo strax í lok fyrsta tímans og í tíma tvö sérstaklega, þá er eins og það kvikni ljós og fólk verður æst í að fara út og mynda og spyr um framhaldsnámskeið. Þá er fólk komið á bragðið og vill halda áfram. Það er gaman að ná að vekja þennan áhuga hjá fólki.  Eftir síðasta tímann er fólk svo oft að grípa okkur og spyrja út í linsur og allskonar ljósmyndabúnað.

Hvað  kennið þið  á námskeiðinu?

Þórunn: Við kennum á þessi helstu verkfæri í myndavélinni; Iso, ljósop og hraða og svo förum við í linsur, brennivídd og þessháttar en einnig lítillega í myndbyggingu og hluti eins og „white balance“.

Ellen: Við reynum að hafa þetta eins einstaklingsmiðað og hægt er á þriggja kvölda námskeiði og reynum að hjálpa hverjum og einum út frá áhugasviði og benda á hvaða tækni gæti verið sniðug fyrir viðkomandi, hvaða linsa og svo framvegis.

Fyrir hverja er námskeiðið ?

Ellen: Það er nú í raun fyrir alla sem vilja byrja að skapa sínar eigin myndir, vilja taka við stjórninni af myndavélinni og hafa áhuga á að læra að taka góðar myndir almennt. Fólk þarf ekki endilega að hugsa sér að verða ljósmyndarar. Námskeið er hugsað fyrir 18 ára og eldri og það er allskonar fólk á þessum námskeiðum, fólk sem vinnur á veftímaritum, heldur úti bloggum eða vefverslunum og fólk sem vill einfaldlega læra að taka góðar myndir af fjölskyldunni sinni og í ferðalögum.

Hvað þarf ég að eiga til að koma á námskeið og þarf ég að kunna eitthvað ?

Þórunn: Þú þarft að eiga myndavél sem þú getur skipt um linsur á, síminn er ekki nóg.

Ellen: Já og myndavélin verður að vera þannig að þú getir stillt allt sjálfur, þarf að vera möguleiki á „manual“ stillingum.

Þórunn: Mig langar nú að taka fram að þú þarft í rauninni ekki að kunna neitt í ljósmyndun,  þetta er byrjendanámskeið þannig að við förum í öll helstu grunnatriðin. Minn mesti misskilningur áður en ég fór að læra ljósmyndun t.d. var sá að ég þyrfti að kunna eitthvað í ljósmyndun fyrir námið.

Skiptir máli hvort vélin er stafræn eða filmuvél ?

Ellen: Nei, það sem við erum að kenna varðandi myndavélina það á við bæði um filmuvélar og stafrænar vélar sem slíkt, grunnatriði sem eiga við um myndavélar og myndatökur  almennt en þar sem þetta er stutt námskeið þá þarft þú að nota stafræna vél á námskeiðinu til þess að geta skilað verkefnunum nógu fljótt. Filmuferlið er allt heldur miklu lengra.

En hvað gerið þið fyrir utan að kenna á byrjendanámskeiðunum?

Ellen: Við vinnum við ljósmyndun bæði saman og í sitthvoru lagi.

Þórunn: Saman erum við með fyrirtæki sem heitir you me and all, þar erum við að fást við það að finna myndunum okkar nýjan búning. Við höfum báðar brennandi áhuga á hönnun og langaði að sameina ljósmyndun og hönnun. Við höfum verið að prenta myndirnar okkar á glerkúlur í mismunandi stærðum og á glerhengi. Við erum alltaf að reyna að finna einhverjar nýjar leiðir til þess að prenta myndirnar okkar á eitthvað annað en blað.

Ellen: Já og bara að sýna fólki að það sé hægt að nýta ljósmyndir á svo marga ólíka vegu. Að koma þeim úr tölvunum og ekki alltaf bara í myndaramma heldur að pófa eitthvað nýtt.

Hvað er ljósmyndun fyrir ykkur ?

Ellen: Ljósmyndun er tjáningarform, ef maður á bara að nota eina skilgreiningnu. Þú ert alltaf að segja eitthvað, alveg sama hvað þú ert að gera. Þú ert að segja sögur, lýsa tilfinningu eða slíkt. Ljósmyndun er bara eitt form tjáningar.

Breytir ljósmyndun heiminum ?

Báðar: Já hún gerir það.

Þórunn: Hún færir okkur nær… ljósmyndun  hefur haft alveg gríðarlega mikil áhrif, svona sögulega séð. Þegar fréttamenn fóru að ferðast og taka myndir af fjarlægum slóðum og stríðshrjáðum svæðum sem sýndu okkur hvað var að gerast annarsstaðar í heiminum og hvernig allt leit út þar, hafði það öðruvísi áhrif á fólk og skilning þess á umhverfi og ástandi því myndir hafa önnur áhrif en orð.

Ellen: Ljósmyndin breytti mörgu, til dæmis eins og þegar ljósmyndun kemur fram þá breytist önnur list í framhaldinu. Málararnir höfðu ekki lengur það hlutverk að fanga raunveruleikann heldur fengu ljósmyndarar það hlutverk og þessvegna þurftu málarar að finna eitthvað allt annað til að fást við. Þannig urðu til nýjar liststefnur. Ljósmyndun hefur haft alveg gríðarleg áhrif á heiminn og skilning okkar á honum á ýmsan hátt.

Við þökkum þeim Þórunni og Ellen fyrir spjallið og bendum á að síðasta byrjendanámskeið ársins hefst þann 29. október 2018. Sjá hér.

Hér fyrir neðan má sjá dæmi um vörur frá you me and all

 

/oh.