Charlotta M. Hauksdóttir sýnir í Ramskram 6. maí – 16. júní

aa

Hauksdottir_Charlotta_Keats_Court_22x30_2013

Charlotta María Hauksdóttir er íslenskur listljósmyndari sem búið hefur og starfað í Kaliforníu í yfir 15 ár. Hún sækir innblástur í verk sín frá Íslandi og fjallar hún í þeim um samspil minninga og tengsl við ákveðna staði og augnablik í tíma.

Charlotta útskrifaðist með MFA gráðu í ljósmyndun frá San Francisco Art Institute árið 2004, og BA í ljósmyndun frá Istituto Europeo di Design í Róm árið 1997.

Charlotta hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og verið með einkasýningar í Bandaríkjunum, Rússlandi og Íslandi, nú nýverið í Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Verk hennar hafa hlotið fjölda viðurkenninga og verið gefin út í tímaritum og bókum. Þau má einnig finna í einka- og almenningsöfnum.

Grein um verk Charlottu og viðtöl við hana er að finna meðal annars á heimasíðu tímaritsins Slate  og eins hér 

Þar segir hún að hún hafi haft mestan áhuga á að skrásetja með þessum hætti hversdagsleg augnablik eða brot úr daglegu lífi fjölskyldna…þetta séu einhverskonar “snippets of fading moments.”

Í texta frá Charlottu sem fylgir fréttatilkynningu Ramskram í tilefni sýningarinnar segir þetta um sýninguna  Augnablik.

Hugmyndin um heimili endurspeglar minningar, nánd og tilfinningaleg tengsl við ákveðna staði. Í syrpunni Augnablik mynda ég fjölskyldur á heimilum sínum yfir tímabil og legg ljósmyndirnar saman þannig að þær blandast hvor inn í aðra. Við það verður til mynd af svo til óbreyttu rými, þar sem samskipti og athafnir fjölskyldunnar eru skrásettar með óljósu, draugalegu yfirbragði. Þessar myndir benda þannig á hverfulleika tilveru okkar og verða vitnisburður um hvernig hversdagslegar uppákomur geta orðið að þýðingarmiklum minningum. Gaston Bachelard skrifaði í bók sinni, Skáldskaparfræði rýmisins, að “húsið hefur bæði einingu og margbreytileika, það er mótað af minningum og reynslu, mismunandi hlutar þess vekja upp mismunandi tilfinningar og ennfremur skapar það nána sameiginlega upplifun”. Stillan í myndunum vekur upp bæði fortíðarþrá og missi, tíminn stendur í stað og gefur áhorfendum bæði tækifæri og rými til að endurvekja hugsanir um eigin reynslu, minningar og staði.

Ramskram á Njálsgötu 49, 101 Reykjavík er sjálfstætt starfandi sýningarrými tileinkað samtímaljósmyndun. Það er stofnað af Báru Kristinsdóttur ljósmyndara með það að markmiði að styðja við ljósmyndun sem listgrein með öflugri sýningarstarfsemi. Sýningar gallerísins eru unnar af þekkingu og kostgæfni með þá stefnu  að leiðarljósi að kynna það markverðasta í íslenskri og erlendri samtímaljósmyndun. Ramskram er ekki rekið í hagnaðarskyni heldur sem miðstöð nýjustu strauma og stefna í
samtímaljósmyndun.
Nánar má fræðast um Ramskram og sýningar á þess vegum á vef  gallerísins og Fésbókarsíðu.