Díana Júlíusdóttir – Lífið.

aa

Díana Júlíusdóttir er nemandi á þriðja og síðasta námsári í Ljósmyndaskólanum. Hún vann 1. verðlaun í ljósmyndasamkeppni sem kennd er við Juliu Margaret Cameron fyrr á árinu fyrir verkið sitt Lífið. Hún var að koma heim af sýningaropnun allra vinningshafa þeirrar keppni í Barcelona. Við hittum Diönu að máli, óskuðum henni til hamingju með verðlaunin og spurðum hana út í þetta allt.

Þú fékkst verðlaun fyrir verkið þitt Lífið fyrr á þessu ári. Segðu okkur aðeins frá því.

Verkið var unnið 2012 á fyrsta ári mínu í Ljósmyndaskólanum og eru raunar hluti að verkefninu mínu fyrir 1. árs sýninguna það vor.

Verkið eru fjórar myndir sem mynda röð eða heild. Myndirnar voru teknar í göngu á Hvannadalshnúk sem var náttúrulega löng ganga, tók 16 klst. Ég var reyndar búin að æfa mjög mikið fyrir þessa göngu, fara á mjög, mörg fjöll, fór í hverri viku. Var alltaf með myndavélina með mér og tók myndir í hvert skipti í öllum veðrum. Svo gerðist eitthvað á Hnúknum en á þessum tíma var ég að gera upp mína fortíð, voru svona kaflaskipti í lífinu hjá mér. Þarna uppi var sem sé eins og ég endurfæddist og það varð einhvernvegin byrjun á nýju lífi hjá mér á einhvern hátt.

Þegar ég kom heim og skoðaði ljósmyndirnar þá fannst mér vera eitthvað þarna sem ég hafði náð að fanga sem ég hafði aldrei náð að fanga áður. Það var eins og allt þetta erfiði í lífinu og þessari göngu og öðrum göngum, væri þarna í myndunum. Ég túlka þessar ljósmyndir eiginlega ekki sem landslagsmyndir heldur kannski meira heimildarljósmyndir um mitt líf. Sé ýmislegt í myndunum sem ég upplifði í lífinu hafði verið að takast á við. Ég sé þarna fortíðina og allt erfiðið sem ég var að baslast í gegnum. Svo er þarna líka erfiðið við gönguna, það að komast áfram að sigrast á þessari þraut sem fjallgangan var.

Svo er þarna það að horfa í núvitundina. Stoppa við fjallið, horfa upp og hugsa hvað vil ég gera? Hvar vil ég vera? Er ég að gera rétt? Horfa á það hvar ég er stödd og vera sátt við það sem ég hef fyrir framan mig, ákvörðunina; ég ætla upp þetta fjall.

Þriðja myndin er framtíðin. Að takast á við fjallið og lífið. Viljum jú öll komast á toppinn en við vitum ekki hvort við komumst. En svo er mikilvægt að átta sig á að það skiptir ekki máli í raun… og held við eigum ekki að vita hvað gerist í framtíðinni. Frekar að við eigum að læra af fortíðinni en ekki endilega samt að vera að velta okkur upp úr henni.

Fjórða myndin kallast engilinn. Er einhverskonar heilun kringum hinar myndirnar. Við ættum ekki að vera hrædd við það sem við þurfum að gera eins og að taka ákvarðanir.

Hvernig ljósmyndari ertu ?

Þessar myndir tóku mig einhvernvegin á þann stað sem ég vil vera sem ljósmyndari.

Ég horfi mikið til Mary Ellen Mark og Juliu Margretar Cameron sem fyrirmynda. Hef mestan áhuga á að taka heimilda- og landslagsljómyndun og svo líka portrettmyndir og tengi þetta allt svo svolítið saman á minn hátt.

Held að það sé mikilvægt fyrir mig persónulega og sem ljósmyndara að eftir þessa fjallaferð þá ákvað ég að taka pásu í skólanum, hún varði í fjögur ár en svo byrjaði ég aftur í fyrra og er að klára núna í janúar.

Ég er mjög þakklát fyrir það að hafa gert það því núna er ég miklu sterkari persóna og vissari á því hvað ég vil gera með ljósmyndun, hvernig ég vil hafa lífið, hvaða fólk ég vil hafa í kringum mig og svoleiðis. Ég er vissari á því hvað veitir mér hamingju og hvert ég vil stefna.

Ég held að maður sé ekki bara að taka eina tegund ljósmynda, heldur að blanda saman allskonar tegundum og lærir af fólki í kringum sig, tekur til sín úr því umhverfi sem maður hrærist í. Held að sé mikilvægt að láta ekki segja sér hvað maður á að gera heldur vinna frá hjartanu og ef maður gerir það þá skilar það sér á einhvern hátt.

Ég er raunar afskaplega þakklát Ljósmyndaskólanum og öllu því fólki sem ég hef lært af þar, því það er vegna verunnar þar sem ég er komin á þann stað sem ég er á. Ef ég hefði ekki farið í námið þá væri ég líklegast ekki að taka ljósmyndunina svona alvarlega eða af svona miklum metnaði.

Nú hefur þessi myndaröð þín Lífið, farið víða…

Já, ég vann til silfurverðlauna í í alþjóðlegri ljósmyndakeppni í San Francisco árið 2014 fyrir þessar myndir. Það var núverandi maðurinn minn sem hvatti mig til að taka þátt í þeirri keppni. Ég gerði mér alls ekki grein fyrir hvað þetta voru sterkar ljósmyndir fyrr en aðrir fóru að segja það við mig. Var svo valin til að taka þátt í samsýningu í Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Samtímalandslag, ásamt 11 öðrum ungum ljósmyndurum. Þetta hvorutveggja hvatti mig áfram í ljósmyndun. Þó ég hafi tekið pásu frá skólanum þá var ég alltaf að mynda og sinna ljósmyndun, selja og taka að mér verkefni en mér fannst ég þurfa að mennta mig meira því þannig eflist maður í hugsun, fræðunum og vinnubrögðum. Ljósmyndun er nefnilega ekki bara að smella af. Að baki einu verki liggur t.d. langt ferli af hugmyndavinnu og öðrum undirbúningi.

Í fyrra sendi ég svo verkið Lífið í samkeppni sem hefur yfirskriftina Julia Margaret Cameron, Award. Ég hlaut fyrstu verðlaun í mínum flokki. Keppendur voru allstaðar út heiminum en vinningshafar reyndust svo frá 15 þjóðlöndum, allt konur, því keppnin er fyrir kvenljósmyndara. Julia Margaret Cameron var frumkvöðull í ljósmyndun, fædd 1811. Hún var kona sem sannarlega skapaði frá hjartanu.

Hvaða gildi hefur þessi keppni fyrir þig sem ljósmyndara?

Það var auðvitað mjög gaman að vinna þessa keppni, ég alveg tvíefldist. Finna að ég er miklu öruggari núna þegar ég er að ljúka náminu en áður.Ég er skipulagðari í vinnu og öruggari í að tjá mig, að segja frá verkunum mínum því ég er komin með svo góðan bakgrunn.

Ég var svo núna að koma heim frá því að vera við opnun á sýningu í Barcelona þar sem allir vinningshafar þessarar keppni sýndu verkin sín. Konur frá 15 löndum, alls 71 listakona og allskonar verk, alls 177 ljósmyndir. Sýningin er í Galleria Valid Foto í Barcelona. Mjög flott. Keppnin að þessu sinni, var haldin í minningu Mary Ellen Mark sem var dómari í keppninni lengi og ein af stóru nöfnunum í ljósmyndun í heiminum. Þetta er líklega einhver stærsta samsýning kvenljósmyndara í heiminum.

Það var svo gaman að hitta allar þessar konur, þær svo metnaðarfullar, vandvirkar og flottir listamenn. Á svona viðburði áttar maður sig líka á hvað munar miklu á vægi ljósmyndunar sem listforms hér á Íslandi og erlendis. Hún er þar svo miklu meira metin sem listform.

Það kom mér líka á óvart að ég var með þeim yngstu í þessum hópi. Margar konurnar þarna búnar að vera að taka myndir og vinna alfarið sem listrænir ljósmyndarar í 20-30 ár eða jafnvel meira. Hér á landi er ljósmyndun af þessu tagi einhverskonar aukastarf því það er eiginlega ekki neitt rými fyrir hana. Það væri óskandi að það yrði breyting á þessu.

Hvað stendur sýningin lengi og hvað er framundan?

Sýningin stendur til 14. október en svo sýni ég í Prag og Berlín næsta vor sem eru viðburðir sem tengjast því að vinna þessi verðlaun.

Sýni svo í París núna í nóvember. Við erum tvær héðan úr Ljósmyndaskólanum sem eigum verk sem sýningarstjórar þeirrar sýningar völdu til að vera hluti af nemendasýningu sem sett er upp í tilefni af hátíðinni Paris Photo. Þátttakendur eru allt nemendur ljósmyndaháskóla víða um heim.

Annars er ég að klára skólann næstkomandi janúar og er í ýmsum langtímaverkefnum í heimildaljósmyndun, er t.d. að fylgja eftir foreldrum langveiks barns. Mun svo halda áfram með útskriftarverkefnið mitt sem er blanda af portrettmyndum, landslags- og heimildaljósmyndun og viðfangsefnið tengist Galtarvita.

Fleiri verk Díönu má sjá hér.

Hér fyrir neðan má sjá myndir frá opnuninni í Galleria Valid Foto í Barcelona og sést þar að vinningsverkin eru býsna hreint fjölbreytt. Neðar er  svo hægt að sjá vinningsmyndaröð Díönu.

Hér er einnig tengill á viðtal við Díönu í Lestinni þann 11. október. Viðtalið við hana byrjar á 19. mínútu þáttarins.

/sr.&oh.

 

Lífið – Díana Júlíusdóttir: