Díana Júlíusdóttir vinnur til verðlauna.

aa

Díana Júlíusdóttir sem útskrifaðist úr Ljósmyndaskólanum í janúar síðastliðinn hefur á undanförnum mánuðum unnið til fleiri en einna verðlauna fyrir verk sín. Við höfðum samband við hana, óskuðum henni til hamingju með velgengnina og spurðum hana aðeins út í hvaða verðlaun þetta væru.

Díana: Já, ég var að fá gullverðlaun í alþjóðlegri ljósmyndasamkeppni; San Francisco Bay International Photo Show.  Ég var ein af þeim sem fékk gullverðlaun og var þar í hópi ljósmyndara víðsvegar að úr heiminum. Núna í september verður sett upp sýning á öllum verðlaunaverkunum á ljósmyndahátíðinni  San Francisco Bay Month of Photography. Verkin verða þá til sýnis í ACCi Gallery í Berkeley í Kaliforníu. Það er gaman að segja frá því að fyrir fjórum árum sendi ég í fyrsta sinn inn ljósmynd í alþjóðlega keppni og það var  þessi sama keppni. Þá vann ég silfurverðlaun. Verkið sem ég sendi inn núna heitir The Lighthouse Boy.  Sú mynd er úr seríu sem var lokaverkefni mitt í Ljósmyndaskólanum.

 

 The Ligthouse Boy
Díana heldur áfram: Nú á dögunum vann ég svo til verðlauna í 11th Julia Margaret Cameron keppninni í þremur flokkum reyndar, flokkunum daglegt líf og menning, portrett og sjálfsmynd.  Julia Margaret Cameron keppnin er ljósmyndasamkeppni sem er bara fyrir konur og til heiðurs ljósmyndaranum Julia Margaret Cameron sem var ein af frumkvöðlum ljósmyndunar. Ég  fékk svo reyndar Pollux verðlaun fyrr í vetur en í þá geta bæði kynin sent inn verk.
Í kjölfarið af þessum verðlaunum býðst mér að taka þátt í  The Gala Awards og mun sýna verk mín á ljósmyndahátíð í Barcelona; The Biennial of Fine Art and Documentary Photography nú  í október. Þar sýna um 400 listamenn víða úr heiminum, sem allir hafa fengið þessi verðlaun. Ég mun sýna 11 verk samtals, nokkur þeirra verða í galleríi en sumum verður varpað  á byggingar í borginni. Það eru landslagsverkin sem ég fékk verðlaun fyrir í fyrra, í 10th Julia Margaret Cameron samkeppninni en svo sýni ég auðvitað líka verkin sem ég fékk verðlaun fyrir núna í 11th Julia Margaret Cameron samkeppninni. Þær myndir eru flestar hluti þess verkefnis sem ég vann sem lokaverkefni mitt við Ljósmyndaskólann þó svo að þær væru svo ekki allar hluti af endanlegu lokavali og því sem ég sýndi á útskriftarsýningunni. Í lokaverkefninu fékkst ég við að skrásetja sumarlanga veru fjölskyldu minnar í Galtarvita.
Sjálfsmyndin sem ég  fékk verðlaun fyrir var þó utan þeirrar seríu en hluti af verkefni sem ég vann í áfanga hjá Agnieszku Sosnowska þegar ég var í skólanum. Þar lærðum við ýmsar leiðir til að gera sjálfsmyndir.
Þú ert nú aldeilis búin að fá viðurkenningu fyrir það sem þú hefur verið að gera. Það hlýtur að vera hvetjandi Díana.
Jú, svo sannarlega en ég hef fengið mun fleiri viðurkenningar erlendis en hér heima og verð að segja að mér finnst svolítið skrýtið hvað það er erfitt að fá að sýna verkin sín hér á Íslandi og þá sérstaklega ljósmyndir. Það er mjög erfitt að komast að og fáir  útvaldir sem sýna verkin sín aftur og aftur. Ég hef sótt um að halda sýningar en ekki fengið. Hef það á tilfinningunni að það séu líka kannski frekar erlendir listamenn sem fá að sýna hér.
Þegar ég hef sýnt erlendis finnst mér það mjög áberandi hvað það er borin mikil virðing fyrir verkunum mínum og viðurkennt hvað það er mikli vinna í hverri mynd.  Fólk sýnir verkunum áhuga og vill fá að vita meira um þau.
En ég er auðvitað ótrúlega glöð með þetta. Það það eru mörg þúsund ljósmyndir sendar inn í keppnir eins og þessar og tugir ljósmyndarar sem eiga þær myndir en fáir fá verðlaun. Verðlaun eins og þessi fá mig auðvitað til að halda ótrauð áfram við að vinna með ljósmyndir og í ljósmyndun og þau veita mér hvatningu til að yfirvinna þær hindranir sem fylgja því að vera listamaður.  Að gefast aldrei upp og vera fylgin sér, vinna frá hjartanu, vera jarðtengd, læra af mistökum og læra af öðrum, ég held að það sé best að hafa það að leiðarljósi.
Við kveðjum Díönu, þökkum henni upplýsingarnar og fylgjum henni spennt í framtíðinni.
Verk hennar má sjá hér og á Instagram og Instagram
/sr.