Ég held að ljósmyndun hafi valið mig

aa

Við höfum undanfarið verið að vinna að vorblaði skólans og kemur það út nú í lok mánaðarins. Mun það meðal annars liggja frammi á Uppskeruhátíð skólans sem haldin verður  dagana 26. – 28. maí. Í blaðinu eru myndir og viðtöl við nemendur og kennara skólans svo eitthvað sé nefnt. Þar birtist þetta viðtal við Sögu Sig. sem er einn kennara við Ljósmyndaskólann.

Ég held að ljósmyndun hafi valið mig

Saga Sig útskrifaðist með B.A. gráðu í tískuljósmyndun frá London Collage of Fashion árið 2011. Hún hefur starfað sjálfstætt frá útskrift og unnið fjölda verkefna fyrir hin ýmsu tímarit og fyrirtæki, til dæmis Nike Women, Topshop, 66°Norður, I-D online og mörg fleiri. Saga er stundakennari við Ljósmyndaskólann.

Hvað varð til þess að þú fórst út í ljósmyndun ?

„Ég fékk ljósmyndadelluna mjög ung, ég var átta ára, bjó á Þingvöllum og heillaðist af því hvernig ljós gat breytt öllu umhverfinu. Ég elskaði hvernig morgunbirtan breytti öllu og eins kvöldsólin. Mig langaði að ná þessu á mynd. Ég held að þetta sé að hluta til söfnunarárátta, safna saman öllum „mómentum“, að hafa allt á einum stað veitir mér ákveðið öryggi. Ég á marga kassa af ljósmyndum frá því ég var lítil. Þó þetta séu ekkert stórkostlegar ljósmyndir þá þykir mér svo vænt um þær, þetta eru „móment“ sem tengjast mér“ segir Saga hugsandi. „Ég held að ljósmyndun hafi valið mig.“

Sérðu sjálfa þig í dag í þeim myndum sem þú tókst sem lítil stelpa?

„Algjörlega, þegar ég var lítil var ég alltaf að búa til allskonar heima og sögur í leikjum. Að mörgu leiti er þetta svipað og ég geri í dag, ég bý til ákveðinn heim. Stíllinn minn er svipaður. Hann týndist svolítið á gelgjunni og hefur auðvitað þroskast en það hafa alltaf verið litir, form og náttúra“

„Ég kynntist ljósmyndun þegar ég vann við Verzlunarskólablaðið og ákvað að velja hana og fór í London Collage of Fashion. Ég byrjaði að vinna strax sem nemandi og var ekkert mikið í skólanum, mætti samt alltaf og skilaði verkefnunum. Ég var bara að vinna og koma mér upp nafni. Ég er af „social media“ kynslóðinni, var dugleg að blogga og heimurinn var að minnka út af internetinu. Ég vann mikið með öðru ungu fólki, til dæmis vinkonu minni sem var stílisti. Við unnum mikið saman og vorum duglegar að segja já við verkefnum. Ég hef fengið ótrúleg tækifæri bara við það að segja já.“

Hvað varð til þess að þú fluttir aftur heim til Íslands ?

„Ég held að London sé góður staður fyrir nýja „talenta“ og gaman þegar maður er ungur, en það eru lítil lífsgæði“ segir Saga en bætir svo við „Ég var heldur ekki viss um að tískuheimurinn eins og ég var að gera hentaði mér. Mig langaði til að gera margt fleira; leikstýra, mála… Mér finnst ég frekar hafa tækifæri til þess hérna á Íslandi. Ég fer bara út ef ég fæ verkefni þar, en verkefnin eru líka farin að koma hingað sem er svolítið skemmtilegt.“

Saga starfar sem stundakennari við Ljósmyndaskólann „Fyrir 5-6 árum, þegar ég var ennþá nemandi í skólanum úti, hafði Sissa samband og bað mig að halda fyrirlestur fyrir nemendur Ljósmyndaskólans. Ég hafði aldrei gert svona áður og var með hnút í maganum. Síðan þá hef ég verið að kenna við skólann. Ég kenni skapandi ljósmyndun, kúrs þar sem við hjálpum nemendum að finna sína eigin rödd og stíl í ljósmyndun. Ég hef líka kennt portfólíó áfanga með Sissu, það hentar rosalega vel því við erum mjög ólíkar en vinnum samt vel saman“ segir Saga. „Mér þykir vænt um Ljósmyndaskólann, þetta er svo mikil fjölskylda. Ég hef stundum borið saman skólann minn, sem ég borgaði margar milljónir fyrir og svo Ljósmyndaskólann. Nemendur Ljósmyndaskólans fá miklu meiri nánd við kennarana sína sem skiptir miklu máli. Ég fékk kannski að hitta kennarann minn í 30 mínútur á önn, hann vissi varla hvað ég hét. Hér fá nemendur einkatíma með kennurunum sínum á hverjum degi. Nándin og aðstaðan skiptir svo miklu máli. Ljósmyndaskólinn er á heimsmælikvarða. Mér finnst mjög gefandi að kenna hérna og ég læri ekki minna en nemendurnir.“ segir Saga og hugsar sig um svolitla stund „Það eru svo flottir krakkar sem útskrifast, ég vildi  að það væri meira „speis“ fyrir ljósmyndun á Íslandi. Við þurfum að búa það til svo allir þessir frábæru listamenn geti unnið við það sem þeir eiga að gera, listina sína.“

 

/oh.