Einar Falur segir frá Landsýn í Kiljunni

aa

Í Kiljunni þann 4. október segir Einar Falur frá bókinni sinn Landsýn en  hún er afurð verkefnis þar sem hann, með ljósmyndavélina að vopni, fetar í fótspor danska listamannsins Jóhannesar Larsen. Larsen þessi ferðaðist um Ísland sumrin 1927-1930 og teiknaði sögustaði Íslendingasagna. Var verkefnið unnið fyrir danska forlagið Gyldendal sem gaf út Íslendingasögurnar í þriggja binda verki í kjölfarið og prýddu teikningar Larsen safnið. Hann var á þessum tíma einn þekktasti listamaður Dana og hafði ekki síst einbeitt sér að  því að teikna og mála fugla.

Jóhannes Larsen var nokkurskonar leiðsögumaður Einars Fals í verkefninu sem er býsna marglaga,  því þó teikningar Jóhannesar hafi verið nokkurskonar rammi um vinnuna og að Einar hafi farið á þá staði sem Jóhannes Larsen teiknaði og tekið þar ljósmyndir, þá er tíminn annar og aðstæður allar. Finnur Einar sitt sjónarhorn á þessa sögustaði, íbúa og aðstæður. Bendir hann t.d. á að nú setur ferðamennska augljós mark sitt á staðina en þegar Jóhannes ferðaðist um Ísland þá var hann gjarnan eini ferðamaðurinn á þessum stöðum.

Sýning á myndum Einars Fals úr þessu verkefni var sumarsýning Hafnarborgar sl. sumar og gat þar að líta myndir Einars ásamt völdum myndum Johannesar Larsen af sögustöðum Íslendingasagnanna.

Sýningin í Hafnarborg og bókin Landsýn eru tvær mismunandi niðurstöður vinnu Einars Fals með viðfangsefnið. Í viðtalinu í Kiljunni segir Einar Falur frá verkefninu, Jóhannesi Larsen og vinnuaðferðum sínum. Þetta er bráðskemmtilegt og fróðlegt viðtal. Það má nálgast hér.  Bókin Landsýn er útgefin af bókaforlaginu Crymogeu fæst í öllum betri bókaverslunum.

Einar Falur er einn þeirra kennara sem starfað hefur við skólann frá upphafi og kennir hér ljósmyndasögu, um myndbyggingu og formfærði og ýmislegt fleira.

/sir.