Einar Falur í Hafnarborg – Landsýn, marglaga samtal við miðla, tíma og aðra listamenn.

aa
 
Einar Falur opnaði nýverið sýninguna Landsýn í Hafnarborg en þar fer Einar um söguslóðir undir leiðsögn löngu látinna myndlistamanna. Fyrir nokkrum árum var það hinn breski Collingwood (f. 1854) sem stýrði för, en síðustu ár hefur Einar fylgt teikningum hins danska Johannesar Larsen (f. 1867). Báðir þessir listamenn ferðuðust um slóðir Íslendingasagnanna fyrir margt löngu. Einar notar verk þeirra sem einhverskonar ramma en verkefni hans er fjölþætt og marglaga samtal við miðla, tíma, söguna og aðra listamenn.
Sýningin stendur yfir til 20. ágúst 2017. Sjá vef Hafnarborgar.
Einar Falur var í stórgóðu viðtali við Víðsjá á dögunum og fjallaði þar meðal annars um þessa leiðsögumenn sína, listköpun þeirra og nálgun þeirra á Ísland.  Ekki síður segir hann þar frá  nálgun sinni á verkefnið og spjallar um vinnuferlið. Í viðtalinu kom meðal annars eftirfarandi fram:
Á slóðir Íslendingasagnanna – í tvígang

„Larsen var mjög vinsæll og þekktur listamaður í Danmörku. Strax á árunum eftir fyrri heimsstyrjöldina var hann langþekktasti myndlistamaður Dana,“ segir Einar Falur. „Þegar hann er að verða sextugur þá fá Gunnar Gunnarsson, rithöfundur, og Johannes V. Jensen, nóbelsverðlaunaskáld, Larsen til þess að fara til Íslands til að gera teikningar fyrir væntanlega útgáfu Gyllendal forlagsins á Íslendingasögunum í þremur bindum.“

Larsen ferðaðist um Ísland á árunum 1927 og 1930 og teiknaði söguslóðir Íslendingasagnanna.

„Munurinn á Larsen og Collingwood var sá, að þegar Collingwood kemur hér 1897 þá var hann þegar búinn að lesa Íslendingasögurnar og var mikill aðdáandi þeirra. Það má segja að hann hreinlega trúi þeim og hann nálgast sögustaðina á mjög upphafinn hátt. Larsen las sögurnar hins vegar fyrst á leiðinni til Íslands, hreifst mjög að þeim, en segir strax að hann sjái að sögurnar verði sjálfar að sjá um dramatíkina. Verkefni hans sé einfaldlega að draga upp sviðsmyndina.“

Reynir að vera hlutlægur

Huglægni og hlutlægni er því nokkuð sem Einari Fali var hugleikið – en hvernig nálgast hann þessi hugtök með ljósmyndavélina að vopni?

„Ég vel mér markvisst að nota stóra blaðfilmumyndavél. Þetta er eins og myndavélar nítjándu aldarinnar, þar sem maður setur dúkinn yfir hausinn og rýnir í matt gler á bakhliðinni þar sem myndin er á hvolfi. Það tekur mikinn tíma að vinna með henni. En ég vel mér þessa nálgun vegna þess að myndirnar verða óhemjuskýrar, skarpar og búa yfir miklum myndrænum upplýsingum þannig að ég reyni að sýna það sem lendir fyrir framan linsuna hjá mér, nákvæmlega eins og það er. Auðvitað vel ég sjónarhornið og rammann, en ég reyni að vera eins hlutlægur í minni sýn og unnt er.“

Vinnureglur og undirþemu

Hann ber vinnuaðferð sína saman við ferðalög forvera sinna. „Í þessu samtali hafa þeir það frelsi, ef svo má segja, að þeir byrja með autt blað. Ég bý til ramma úr því sem þegar er til fyrir framan mig, en út frá þeirra vali.“

Einar Falur setur sér ýmsar vinnureglur í verkefnum sínum, en hann fléttar einnig inn í þau ýmis undirþemu. „Til dæmis tók ég inn mörg samtímaþemu, ég tókst á við ferðamennskuna, fólk sem ég hitti og átti í samræðum við, svo ég myndaði líka fólk á ferðalaginu. Portrettið kom þannig inn í þetta, sem er ekkert hjá Larsen. Hann er ekkert að teikna fólk.“

Sjálfstætt verk um eigin samtíma

Ljóst er að Einari þykir vænt um myndavélina sína, þar sem hann talar um að vinna með henni, en ekki með hana. Þau eru samstarfsaðilar og gera ekkert án hvors annars. En þótt Einar Falur leyfi þessum löngu látnu myndlistarmönnum að vera leiðsögumenn sínir á ferðalaginu þá er hann engu að síður ljósmyndari sjálfur sem vinnur að sjálfstæðu verki. „Það mikilvægasta af öllu, er að þótt ég eigi í samtali við 20. öldina og söguöldina, þá er ég að takast á við minn samtíma. Það er verkið sem ég er að setja hérna fram. Mín sýn á minn tíma. Á Ísland samtímans.“ http://www.ruv.is/frett/med-latnum-leidsogumonnum

 

Einnig var einkar fróðlegt viðtal við Einar Fal í Kastljósi þann 30. maí 2017 og má horfa á það innslag hér.

 

/sr.