Einar Falur sýnir í Ketilhúsi Listasafns Akureyrar.

aa

 

Listak_posters_Einar_Page_2.1

Griðastaðir í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi 4. mars – 16. apríl 2017.

Sýningin Griðastaðir er úrval ljósmyndaverka úr fjórum tengdum seríum sem Einar Falur Ingólfsson hefur unnið að á undanförnum áratug. Það var svissneski sýningarstjórinn Christoph Kern sem valdi verkin á sýninguna en seríur Einars sem hann velur úr eru:  Griðastaðir, Skjól, Reykjanesbrautin og Sögustaðir. Í verkunum tekst Einar Falur á við manninn og íslenska náttúru; við náttúruöflin, hvernig mennirnir reyna að lifa í og með náttúrunni, laga hana að þörfum sínum, verjast henni á stundum en jafnframt leita í henni skjóls. Verkin eru öll tekin á 4 x 5 tommu blaðfilmu eins og fram kemur  í umfjöllun um sýninguna á  heimasíðu Listasafns Akureyrar.

Í Ketilhúsinu opnar um leið sýning Sigrtyggs Bjarna Baldvinssonar, 360 dagar og málverk. Samanstendur  hún af ljósmyndaverkum, gvassmyndum og olíumálverk.
Ljósmyndaverkið 360 dagar í Grasagarðinum var upphaflega unnið fyrir Listvinafélag Hallgrímskirkju. Kveikjan að verkinu er ævi og örlög Hallgríms Péturssonar, en það hefur þó mun víðtækari skírskotanir. Verkið samanstendur af um 80 ljósmyndum teknum á 360 daga tímabili í litlum skrúðgarði í Brighton á Englandi og fjallar um hringrás efnis í lífríkinu og þá eilífð og endurnýjun sem skynja má í henni. Málverkin á sýningunni eru annars vegar „randamyndir“ unnar með endurunnum gvasslitum Karls Kvaran og hins vegar olíulitaverk þar sem myndefnið er sindrandi eða merlandi vatnsfletir. Heimssíða Listasafns Akureyrar.

Sýningarnar eru í raun einkasýningar á sitt hvorri hæð rýmisins.

Fróðleg umfjöllun er um sýninguna og viðtal við þá Einar Fal og Sigtrygg Bjarna í Fréttablaðinu þann 3. mars. Þar segir Einar Falur meðal annars að það hafi verið sérstaklega gaman fyrir sig að vinna með sýningarstjóra við þessar aðstæður; þar sem sýningarstjórinn Christoph Kern  fékk að velja úr myndum Einars út frá sinni sýn. Einar segir að Kern hafi að mestu sleppt því að velja á sýninguna  portrettmyndir með menningarsögulegar tilvísanir sem alltaf hafi verið nokkur þáttur í því sem hann hafi verið að gera. Val Kern snúist meira um landið og upplifun Einars sjálfs af landinu. Þetta sé ekki síst athyglisvert þar sem Kern hafi aldrei komið til Íslands. “Þannig að hann skoðar mína sýn á landið alveg ómengaða af hans eigin upplifun og það finnst mér mjög áhugavert”  segir Einar Falur í viðtalinu í Fréttablaðinu.

/sr.