Ljósmyndaskólinn – Ekki hægt að verða fyrir vonbrigðum á París Photo!

aa

 

Paris Photo er stór alþjóðleg ljósmyndahátíð og listamessa, helguð ljósmyndamiðlinum sem haldin er í nóbember mánuði ár hvert í París.  Hefur hátíðin verið haldin síðan árið 1997. Fjöldinn allur af hliðaratburðum er einnig í boði  þann tíma sem hátíðin er haldin; bókamessur og sýningar af ýmsum toga.  Setur hátíðin svip á menningarlíf Parísarborgar á meðan á henni stendur.

Hefð er fyrir því að nemendur lokaannar náms í Ljósmyndaskólanum fari á hátíðina haust hvert og eru nú útskriftarnemendurnir nýkomnir París. Sissa skólastjóri fór með hópnum eins og svo oft áður.

Tíðindakona bloggsins spurði hana hvort hátíðin hefði staðið undir væntingum að þessu sinni?

„Já,  svo sannarlega“ segir Sissa. „Að vanda varð maður ekki fyrir vonbrigðum, þetta var dásamlegt. Þarna var mikið af stórkostlegum verkum eins og alltaf, bæði frá ungum og upprennandi listamönnum og svo líka eldri og þekktari listamönnum. Svo er þetta nú náttúrulega svo fallegur staður, Grand Palais og einstök umgjörð um svona listaverk. En það stendur víst til að það verði hafist handa við viðgerð á höllinni núna á næstunni þannig að það er spurning hvar Paris Photo verður næst?“

Fannst þér að einhverjar sérstakar áherslur væru áberandi í því sem sýnt var á hátíðinni?

„Þetta var fjölbreytt að vanda en þó fannst mér áberandi hvað það var mikið af „archive“ verkum  eða allskonar verkum sem byggð eru á einhverskonar safni eða skrásetningu. Eins voru áberandi verk sem tengjast samfélagsmiðlum með einhverjum hætti, ég nefni t.d. Dimitry Markov í því sambandi, í rauninni byggir hann bókverkið sitt á myndum sem hann tekur fyrir Instagramið. Svo var sérstök áhersla á konur í ljósmyndun sem var vissulega áhugavert. Þar voru sýnd verk kvenna sem hafa haft ljósmyndamiðilinn að tjáningarformi, allt frá verkum Juliu Margretar Cameroon sem var að skapa sín verk á 19. öldinni  og  til samtímalistakvenna eins og Vivianne Sassen. Mjög mörg verk og nöfn sem þar var gert hátt undir höfði með ýmsum hætti. Svo voru einnig fyrirlestrar og erindi þar sem reynt var að varpa ljósi á ýmislegt, meðal annars þá sláandi staðreynd að þó svo að 60% af þeim sem útskrifast úr listaskólum séu konur eru þær aðeins 20% sýnenda í sýningarsölum. Dálítið skakkt er það ekki?“

Jú, sannarlega, en er eitthvað fleira sem þú vilt minnast á?

„Mig langar kannski að minnast á bókamessurnar. Það eru tvær bókamessur  í gangi á meðan á hátíðinni stendur Polycopies og Offprint. Þar kynna forlög af ýmsum stærðum útgáfur sínar. Polycopies svíkur sko engann, sú messa er um borð í báti og þar eru seldar bækur sem eingöngu hafa verið gefnar út í litlum upplögum, af smáum forlögum eða jafnvel  af listamönnunum sjálfum. Þar er margan gullmolann að finna og eins gott að vera búin að ákveða fyrirfram hvað maður ætlar að eyða miklu áður en maður stígur um borð í bátinn.

Svo er líka Offprint bókamessan og þar er einnig mjög margt skemmtilegt að finna. Þar var meðal annars bókin hans Hafsteins Viðars Ársælssonar, Svartmálmur en Hafsteinn er einmitt einn af útskrifuðum nemendum Ljósmyndaskólans. Þetta er fyrsta verk eftir nemanda sem fer á svona stóra bókamessu og fylltist ég miklu stolti yfir að sjá hana þarna. Vonandi verða þau fleiri í framtíðinni, verk nemeda sem rata á svona viðburði.“

Þannig að þar er ekki hægt að verða fyrir vonbrigðum á París Photo?

Nei það er alltaf eitthvað spennandi í gangi

Og þú hlakkar til að fara næst á París Photo?

„Oh, já svo sannarlega.“

Sissa með verk eftir Tim Walker sem bakgrunn.

Rosalind Solomon

Carolla Bénitah

Richard Avedon

Stephan Gladieu: Hereros Real Portraitik 1#

Færslunni fylgja nokkrar svipmyndir frá Paris Photo ferðinni sem Sissa tók. Endilega kynnið ykkur þessa listamenn frekar!

/sr.