Elina Brotherus í Listasafni Íslands – Nú fer hver að verða síðastur!

aa

ELINA BROTHERUS – LEIKREGLUR í Listasafni Íslands til 24. júní 2018

Listasafn Íslands sýnir um þessar mundir ný verk eins þekktasta ljósmyndara samtímans, Elinu Brotherus.

Sýningunni lýkur þann 24. júní svo nú fer hver að verða síðastur að sjá hana.

Á vef Listasafnsins segir þetta um Elinu og verk hennar: Elina Brotherus (f. 1972 í Finnlandi) fæst að mestu við gerð sjálfsmynda og landslagsmynda. Í verkum Elinu má skynja sterka nálægð hennar sjálfrar en hún kemur fyrir í öllum ljósmynda- og vídeóverkum sýningarinnar, berskjölduð og hispurslaus. Verkin eru unnin á árunum 2016-2017 og einkennast af marglaga frásögnum sem sveiflast á milli kímni og trega. Í mörgum þeirra setur Elina sér leikreglur og fer eftir þeim innan ramma myndavélarinnar, sem er í senn leikfélagi hennar og sálarspegill.

Verk Elinu vöktu snemma athygli vegna nálgunar hennar á notkun ljósmiðla til endurspeglunar á tilfinningalífinu og leikriti hins daglega lífs. Hún kannar persónulegar en í senn sammannlegar upplifanir, sjálfsmyndina, tímahugtakið, nærveru og fjarveru ástarinnar.

Elina Brotherus nam ljósmyndun í Helsinki og býr í Finnlandi og Frakklandi. Hún hóf að sýna verk sín í lok 10. áratugarins sem hluti af hinum þekkta Helsinki School hópi ljósmyndara í Finnlandi og hafa verk hennar síðan verið sýnd víða, s.s. í Centre Pompidou í París; Neue Berliner Kunstverein í Berlín; Þjóðarlistasafni Finnlands Ateneum í Helsinki og Louisiana nútímalistasafninu í Danmörku. Verk Elinu voru sýnd í i8 Gallery í Reykjavík árið 2000 og á samsýningu í Gerðarsafni í Kópavogi árið 2006.

Sýningarstjóri: Birta Guðjónsdóttir

Hér má finna viðtal við Birtu á vef Ríkisútvarpsins. Þar segir hún meðal annars: „Ég heillaðist mjög snemma af verkunum hennar og ég held ég sé ennþá að heillast af sömu hlutunum. Hún snertir einhvern melankólískan streng í manni, þar er listin svo mikilvæg því hún er mögulega það eina sem nær að snerta þessa strengi. Og á einhvern furðulegan hátt hefur hún líka náð þessari tengingu að maður getur horft á hennar líkama og andlit, en séð í raun og veru sjálfan sig,“ segir Birta Guðjónsdóttir um verk Elinu.

Í Fréttablaðinu  er  einnig afar fróðlegt viðtal við Birtu um Elinu og verk hennar og þar kemur skýrt fram að  Elina Brotherus hefur alla tíð unnið með ljósmyndina sem sinn aðalmiðil en aðspurð um hlut og stöðu ljósmyndarinnar innan samtímalistar segir Birta að ljósmyndin hafi einmitt komið af miklum krafti inn í samtímalistina um það leyti sem Elina Brotherus var að koma fram á sjónarsviðið. „Ljósmyndin kom þá fram sem miðill sem er að verða alltaf minna og minna umdeildur sem tæknilegur miðill. Maður sér að þeir sem vinna með ljósmyndina á einn eða annan hátt finna sjálfir skýrari línur á milli þess hverjir eru ljósmyndarar út frá tæknilegum forsendum og hverjir listamenn út frá fagurfræði eða forsendum samtímalistar.

Með þessum breytingum fór líka í auknum mæli að myndast víða vettvangur fyrir listamenn sem vinna með ljósmyndina sem slíka. Það hefur reyndar verið dálítið erfið fæðing á Íslandi en samt eigum við marga frábæra listamenn sem vinna með ljósmyndina. Listamenn sem fara víða og njóta virðingar á alþjóðavettvangi þannig að þetta er allt í áttina. Ég veit ekki hvort það er hægt að segja að það sé vakning í gangi en það er þó tvímælalaust vöxtur.“

Þann 2. júní sl. var Elena með listamannaspjall í tengslum við sýninguna og við það tilefni kom fram hjá Birtu Guðjónsdóttur sýningarstjóra og deildarstjóra sýningardeildar að Listasafn Íslands hyggðist beita sér fyrir auknum hlut ljósmynda í safneign og sýningarhaldi í framtíðinni enda ljósmyndin mikilvægur hluti samtímalista með enn ákveðnari hætti en fyrr.

Sýningin er hluti af dagskrá Ljósmyndahátíðar Íslands 2018

Mynd með færslu: Einar Falur Ingólfsson

/sr.