Eva Schram – „Þessi tegund myndsköpunar er dálítið eins og að handskrifa bréf….“

aa

Eva Schram er nemandi á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 2. Undanfarið hálft ár hefur myndaröð hennar Off Duty verið til sýnis á hárstofunni Barbarellu, á horni Vonarstrætis og Suðurgötu. Eva hefur bætt myndum við sýninguna jafnt og þétt yfir tímabilið og eru þær nú allar sautján til sýnis fram til 10.janúar nk. Miðvikudaginn 18.desember verður Eva á staðnum milli klukkan 18-20 með heitt glögg og verk sín til sölu.

Eva Schram. Mynd: Dóra Dúna.

 

Eva hvernig kom þetta til að þú sýnir verkin þín á hárstofunni Barbarellu og með þessu fyrirkomulagi?

Fyrsta ljósmynd seríunnar varð til á hárstofunni Barbarellu. Þar bankaði ég uppá, á ísköldum degi í febrúar og fékk leyfi til að vaða inn, bláókunnug, með allsbert föruneyti og filmuvélar í farteski. Það var svo um vorið þegar verkið í heild var til sýnis á Uppskeruhátíð Ljósmyndaskólans, að eigendur hárstofunnar litu við og buðu mér að halda sýningu hjá sér. Það er hrífandi fá að sýna verkið á upphafsreit þess og þannig varð þetta rómantíska horn Vonarstrætis og Suðurgötu að lifandi leikmynd.
Off Duty hefur nú verið til sýnis á Barbarellu síðan í júlí. Verkið samanstendur af sautján ljósmyndum sem ég hef skammtað inn jafnt og þétt yfir sýningartímabilið, í takt við hægt framkvæmdarferli filmuvinnslunnar. Verkið í heild er nú til sýnis fram til 10.janúar.

 

Sýningar utan hefðbundinna listrýma færa verkin til annars áhorfendahóps. Er það

eitthvað sem þér finnst mikilvægt?

Tvímælalaust. List er öllum nauðsynleg og ætti að vera á hvers manns færi. Ekki allir hafa tíma eða rúm til að sækja hefðbundin listrými í amstri hversdagsins og þarf listin því að vera aðgengileg þar sem sem flestir fá hennar notið.

 

Er Off Duty verk sem þú hefur haldið áfram að þróa?

Nú er liðin heil meðganga frá því Off Duty var getið og mun tíminn leiða í ljós hvernig verkið vex og dafnar. Verkið og útfærsla þess hefur verið í stöðugri þróun. Hver og ein þessara mynda er sérstaklega handstækkuð í myrkraherbergi, þar sem hafist er við líkt og á tilraunastofu, með tímann og efnablöndur að vopni. Við kollegi minn líkjum okkur stundum við bakara sem hnoða í deig allan liðlangan daginn, sem svo er látið hefast yfir nóttina og hitað daginn eftir. Uppskeran er misgóð, suma daga bakast töfrar, aðra eintóm vandræði. Ég hef hjakkast í sömu myndinni tímum, jafnvel dögum saman og fikrað mig áfram í átt að réttum aðferðum, stærðum og efnum, þar til ég þykist sátt við útkomuna.

Off Duty samanstendur af myndum af konum við ýmsa hversdagslega iðju, en þær eru

alltaf naktar, – kvenlíkaminn er í fyrirrúmi í verkinu. Viltu segja eitthvað mér eitthvað

um verkið?

Hugmyndin að verkinu má segja að hafi sprottið út frá vangaveltum um hlutgervingu kvenlíkamans og niðurlægingunni sem henni fylgir. Hér fær konan frímínútur frá veraldlegum skyldum og merkimiðum samfélagsins. Titill verksins segir að mínu mati allt sem segja þarf.

 

Hefur þú fengið viðbrögð við verkinu?

Já, mikil viðbrögð! Myndirnar virðast vekja ánægju og forvitni fólks sem gjarnan brosir í kampinn og jafnvel skellir upp úr. Það sér frelsi í daglegu lífi í hjarta Reykjavíkur, án samfélagslegra hamla. Fólk á sér gjarnan eftirlætis mynd sem orkar sérstaklega á það. Viðskiptavinir Pétursbúðar, strætóferðalangar, verðandi mæður. Fátækur námsmaður kom til mín eitt sinn og sagðist sjá sjálfan sig í hraðbankamyndinni; algerlega berskjaldaður gagnvart bankanum. Það veitir mér innblástur þegar sama verkið er túlkað frá ólíkum sjónarhornum. Ég hafði líka gaman að því þegar ég var spurð hvort þetta væru gamlar ljósmyndir sem ég hefði grafið upp og unnið með. Kannski er það nostalgían, frelsið og tímaleysið í þessum ljósmyndum sem heillar.

Nú hlýtur framkvæmd verkefnisins að hafa verið dálitið flókin ekki satt?

Ég myndaði alla seríuna á filmu, á tveimur dögum í ísköldum febrúarmánuði. Verkið krafðist undirbúnings og skipulagðra vinnubragða, ekki síst vegna þess að ég hafði takmarkað dagsljós til umráða en einnig vegna þess að ekki máttu líða fleiri en nokkrar sekúndur milli þess sem fyrirsætan henti af sér yfirhöfninni og stillti sér upp nakin í kuldanum. Ég þurfti því að hafa hraðar hendur og markvissa áætlun. Ég hafði skipulagt staðsetningar og séð fyrir mér rammana. Ég var ein að verki ásamt fyrirsætunni en sótti mér stundum aðstoð gangandi vegfarenda. Ég fékk til dæmis tvo ferðamenn til að halda á kápu fyrirsætunnar meðan hún stillti sér upp á tröppum Landakotskirkju. Í sömu andrá opnuðust kirkjudyrnar og út gekk hópur kaþólikka sem töldu sig eflaust komna til upphæða við þá himnesku sýn sem við þeim blasti.

 

Nú vinnur þú mest með filmu. Af hverju velur þú filmuna á þessari tækniöld?

Ég er hálf gamaldags í máli og mynd. Ég vil brugga frá grunni, eiga fátt, búa smátt, elska hrátt. Kannski er þetta þvermóðska gagnvart framþróun eða bara óttaleg dramatík. Ég nýt þess að vinna hægt, í friði með sjálfri mér, salta efniviðinn og sjá hann verða til í höndum mínum frá upphafi til enda. Og þess vegna laðast ég að þessari tegund myndsköpunar, sem fyrir mér er dálítið eins og að handskrifa bréf. Það hægir á og krefst ákveðins hugarfars og útsjónarsemi. Það er tímafrekt og í því er falin ákveðin áhætta. Verði manni á, neyðist maður til að byrja uppá nýtt. Loks er afurðin innsigluð og við tekur óþreyjufull bið eftir svari.
Bölvuð rómantík.

Myndir með viðtali eru úr verki Evu Off Duty sem sjá má á Barbarellu til 10 janúar 2020.

Mynd af  Evu með færslu er eftir Dóru Dúnu.

/sr.