Fyrir 100 árum voru veiðar enskra og þýskra togara á heimamiðum Færeyinga farnar að þrengja að innlendum útgerðum og leituðu þeir þá á miðin uppi við Ísland og fóru alla leið til Grænlands. Árið 1927 fengu Færeyingar leyfi til að byggja útgerðarstöð í Kangerluarsoruseq, um 50 km suður af Nuuk, og fékk hún nafnið Færingehavn. Stöðin óx og sumarið 1949 gerðu meira að segja fjögur íslensk skip út frá Færingehavn. Þegar Danir gengu í Evrópusambandið 1972 ógiltust samningar og smátt og smátt lagðist höfnin af þótt þar væri áfram fryst rækja fram undir 1990. Í næstum sjötíu ár höfðu Færeyingar þarna mikil umsvif en á síðustu áratugum hafa bærinn og vinnsluhúsin drabbast svo að nú eru uppi áform um að rífa húsin og jafna allt við jörðu.

Ásgeir Pétursson fór og myndaði á þessum afskekkta stað. Þorpið er illa farið, hús og bryggjur að hrynja og netadræsur og drasl úti um allt en þó má sjá að þetta hefur verið myndarlegur staður meðan allt stóð í blóma. Til að gefa okkur tilfinningu fyrir þeim tíma fór Ásgeir líka til Færeyja og hafði uppi á fólki sem unnið hafði í stöðinni, hlustaði á frásagnir þeirra og tók af þeim myndir. Það er oft sagt að ljósmyndir skrái söguna – séu heimild um liðinn tíma – en þær geta líka hjálpað okkur að skilja betur það sem gerst hefur, að vekja lifandi tilfinningu, jafnvel út frá rústum og hálfútmáðum ummerkjum. Ljósmyndir eru ekki bara heimild heldur geta kveikt ímyndunarafl okkar og gert okkur kleift að kafa ofan í umhverfi okkar og aftur í söguna. Myndraðir Ásgeirs opna okkur leið inn í fortíð okkar og granna okkar á norðurslóðu.

Texti: Jón Proppé