Forystufé á fæti í Fræðasetri um forystufé í Þistilfirði.

aa

Forystufé á fæti í Fræðasetri um forystufé á Svalbarði í Þistilfirði.

Við báðum Sigurborgu Rögnvaldsdóttur að segja okkur aðeins frá þessu verkefni sem hún er búin að vinna að í allnokkur ár.

Þessi  sýning Forystufé á fæti er hluti af miklu stærra verkefni um forystufé eða raunar sauðfé og sauðfjárbúskap.  Sýningin er í þremur hlutum en sá viðamesti er ljósmyndasýning, 20 andlitsmyndir eða portrett af forystuám og er markmiðið fyrst og fremst að gefa mynd af útlitslegum fjölbreytileika forystuáa. Fyrir utan að vera mismunandi að lit og bíldóttar, glæsóttar, krúnóttar eða blesóttar, hafa þær mismunandi hornalag og andlitsfall. Ljósmyndasýning er í litlu galleríi í Fræðasetri um forystufé og horfast þessar 20 ær í augu við áhorfandann þegar hann stendur inn í þessu rými, hann er umkringdur forystuám.

Auk ljósmyndanna 20 eru lítið bókverk/sýningarskrá og myndbandsverk hluti af sýningunni. Í bókverkinu eru allar ljósmyndirnar og við hverja þeirra er texti frá eiganda eða umsjónarmanni ærinnar. Þetta getur verið saga af henni, minning henni tengd, lýsing á henni eða eitthvað annað.  Markmiðið með því að tvinna þennan texta við myndirnar var kannski þrennskonar; að miðla því orðfæri sem notað er í búskap, að endurspegla aðstæður og búskaparhætti og svo ekki síst að gefa innsýn í tengsl eiganda og skepnu.

Aðalbjörg – © SIGURBORG RÖGNVALDSDÓTTIR

Kápa – © SIGURBORG RÖGNVALDSDÓTTIR

Kátína – © SIGURBORG RÖGNVALDSDÓTTIR

Sem dæmi eru hér myndir af forystuánum Aðalbjörgu, Kápu og Kátínu.

Um Aðalbjörgu segir Stefán eigandi: Hún er nú með undómshroka.

Umsögnin um Kápu frá Sigþóri er svona: Hún er undan Falleg og systir Skellu. Mér fannst jafnvel að það væri heldur meiri forysta í henni í haust. Hún er miklu rólegri en Skella en þetta kemur allt í ljós. 

Bjarki segir um KátínuHún er þrílembingur undan Grímu og vildi alls ekki láta venja sig undir (aðra móður) þegar hún var lamb. Bara neitaði að sjúga fósturmóður sína. Fylgdi henni þó á endanum um sumarið. Hún er nú býsna skemmtileg og lífleg ær á húsi.

Myndbandsverkið er svo samansett af myndskeiðum sem tekin eru með dróna og ljósmyndaröðum. Sýna þau öll forystufé hlaupa á undan safni við ýmsar aðstæður. Þar sést líka vel hversu þær eru vökular og athugular skepnur því oftar en ekki vakti dróninn mikla athygli þeirra og varð jafnvel til þess að þær beygðu af leið því þeirra hlutverk er jú að leiða fjársafnið óhult og forða því frá hættum.

Ertu búin að vinna lengi að þessu verki?

Já það eru nú orðin nokkur ár,  kannski bara frá því ég byrjaði að taka ljósmyndir en eftir nám í Ljósmyndaskólanum þá fór ég að vinna markvisst að þessu verkefni sem snýr að skrásetningu á sauðfjárbúskap á 21. öldinni og sauðkindinni. Sé fyrir mér að það geti orðið nokkuð margvísleg niðurstaða af þessari vinnu og Forystufé á fæti er ein afurð verkefnisins.

Forystufé á fæti, hvað þýðir það?

Yfirskrift sýningarinnar felur í sér að fyrirsæturnar voru allar lifandi þegar þær voru myndaðar,- fé á fæti.  Kallast ljósmyndasýningin þannig á við uppstoppuðu hausana af forystufé í föstu sýningunni í Fræðasetrinu. Forystukindurnar á myndunum eru allar af bæjum í Öxarfirði en myndirnar á sýningunni gefa ekki tæmandi mynd af forystuám í sveitinni, þær eru miklu fleiri.

Af hverju forystufé?

Á vinnslutíma verkefnisins hafa margir spurt mig hvað forystufé sé og hvað geri það svona sérstakt.  Ég dró kjarna þessara spurninga saman og bað Stefán stórbónda á Leifsstöðum í Öxarfirði að svara þeim. Svörin er að finna í heild í sýningarskránni en hér er smá dæmi:

  1. Hvernig eru forystukindur öðruvísi en aðrar kindur? Forystukindur eru sérstakt kyn. Eru yfirleitt grannar og léttar á sér, kvikar í hreyfingum og athugular.  Gjarnan með mikinn persónuleika og hver forystukind hefur sín sér einkenni. Þær eru vitrari en aðrar kindur og allar mislitar.
  2. Hvað eru forystukindur? Hvernig verða kindur forystukindur? Forystukindur eru kindur sem stjórna fjárhópnum, leiða hann áfram og vakta hjörðina. Eru sérstakt kyn en þurfa auðvitað að fá tækifæti til að æfa sig og vera treyst.
  3. Hvernig veistu að kind er forystukind? Ef hún er af hreinræktuðu forystukyni
  4. Eru forystukindur það sama og forystusauðir? Forystusauður er geltur (vanaður) forystuhrútur.
  5. Er kjötið eða ullin af þeim öðruvísi? Kjötið er fitulaust og mjúkt ef rétt er eldað. Bragðið er svipað og á öðru lambakjöti. Ullin er mýkri en ull af venjulegum kindum.  Ullarmagnið er þó yfirleitt minna.
  6. Eru þeir bændur sem eiga forystukindur öðruvísi en aðrir bændur? Þeir eru sér meðvitaðir um hversu dýrmætt er að halda við þessum sérstaka fjárstofni. Hafa meira umburðarlyndi og þolinmæði því stundum er erfitt að temja þær svo vel nýtist við það að halda fjárhópnum saman og koma honum heilum heim að húsum. Ef þú sýnir þeim virðingu og vinsemd verða þær auðveldari í umgengni og endurgjalda þér margfalt.

Það hafa verið gerðar ýmsar rannsóknir á þessum fjárstofni og t.d. birtist mjög fróðleg grein um forystufé í Náttúrufræðingnum, 85. árgangi, 3-4 hefti  2015. Af því tilefni var viðtal við einn greinarhöfunda, Jón Viðar Jónmundsson, í Speglinum og hlusta má á það hér. Þar kemur fram að ítarlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að íslenskt forustufé hefur eiginleika sem eru óþekktir í öllum öðrum sauðfjárstofnum í heiminum, og líta beri á forustuféð sem sérstakt búfjárkyn. Talið er einstakt að jafn lítið kyn hafi haldið sérkennum sínum jafnlengi en forustufé er talið hafa verið til á Íslandi frá landnámsöld.  Mér finnst þetta afar merkilegt fé og skemmtilegt og verð að segja að fátt finnst mér fallegra en forystufé á fartinni.

Hvort eru algengari forystuær eða forystusauðir?

Í nútímanum eru fleiri bændur sem halda forystuær til að fara fyrir fjársafni sínu í smalamennsku og rekstri en forystusauði. Það eru þó alltaf einhverjir sem láta gelda forystuhrúta og halda þá sem sauði.  Forystuær og forystuhrútar eru auðvitað mikilvæg til að stuðla að viðgangi stofnsins en þess ber að geta að það eiga alls ekki allir bændur forystufé.

Var ekkert erfitt að mynda kindurnar?

Ég hef notið mikillar hjálpsemi og aðstoðar frá bændum í sveitinni við þetta verkefni en það að mynda kindurnar krefst aðallega þolinmæði og tíma og svo þess að þekkja háttalag og hegðun forystufjár. Forystufé er oft miklir karakterar og ekki til í að láta hafa sig út í neina vitleysu. Það er því mikilvægt að ávinna sér traust þeirra. Margar af ánum sem ég hef myndað oftast þekkja mig orðið og þær vita hvað stendur til og þá gengur myndatakan fljótt fyrir sig, þær bara stilla sér upp eins og til er ætlast, – en ég hef alveg þurft að húka og bíða átekta í 1-2 tíma til að ná mynd eða jafnvel að gera margar atlögur að því.

Fræðasetur um forystufé hvað er það?

Fræðasetur um forystufé opnaði fyrst sumarið 2014 í gamla samkomuhúsinu á Svalbarði í Þistilfirði en hafði þá verið í undirbúningi í nokkur ár. Fasta sýning Fræðasetursins er hönnuð af Þórarni Blöndal og Finni Arnari Arnarsyni og er einkar vel lukkuð, fallega hönnuð og framsett og nýtur sín vel í þessu gamla samkomuhúsi sveitarinnar. Í kjallaranum á húsinu er svo Sillukaffi og þar hægt að kaupa kaffi sem er sérblandað, brennt  og malað fyrir staðinn, Ærblönduna og ýmislegt góðgæti. Allar upplýsingar um starfsemina má finna á www.forystusetur.is og Facebook- síðu setursins.

Það er svo gaman að segja frá því að sýningin Forystufé á fæti kallast á við aðra starfsemi í Fræðasetrinu. Þar er meðal annars hægt að kaupa spunna ull af forystufé en einnig vandaðan prjónavarning sem allur er úr ull af forystufé og þarna er einmitt til sölu band úr ull af kindunum sem myndir eru af á sýningunni. Svo tengjast ærnar á ljósmyndunum líka inn í föstu sýninguna í Fræðasetrinu með ákveðnum hætti.

Sýningin Forystufé á fæti stendur í Fræðasetri um forystufé á Svalbarði í Þistilfirði til loka ágúst 2018 og er tileinkuð minningu Gríms Jónssonar bónda í Klifshaga í Öxarfirði sem alltaf hélt forystufé og var lykilmaður í því að viðhalda stofni forystufjár í landinu. Grímur seldi aldrei forystufé – hann gaf það.

Hægt er að fylgja Sigurborgu á Instagram.

/oh