Fyrir hverja eru þessi námskeið?

aa

Ljósmyndaskólinn býður reglulega upp á  byrjendanámskeið í ljósmyndun en einnig ýmis önnur námskeið eða vinnustofur í ljósmyndun. Nefna má að í ágúst er námskeið í skapandi notkun sjálfsmynda með listakonunni Agnieszku Sosnowska. Hún hefur fengið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín. Nú síðast fyrstu verðlaun í ljósmyndasamkeppni CENTER’s Director‘s Choice Award.  Verkefni hennar nefnist  A Year Book. Myndin sem fylgir færslu er eftir Agnieszku.

Auk námskeiða á vegum skólans sem auglýst eru undir námskeiðslflipanum á heimasíðunni, hýsir Ljósmyndaskólinn gjarnan önnur áhugaverð námskeið og vinnustofur í ljósmyndun. Nú í ágúst munu Einar Falur og Raxi  standa fyrir vinnustofu í húsnæði skólans. Nánar má lesa um þá vinnustofu og  tekið er við skráningu á vef   fyrirtækisins photoxpeditions.is

Tíðindakona bloggsins hitti Sissu skólastjóra og spurði: Nú eru auglýst allskonar vinnustofur á vegum skólans.  Þarf maður að vera lærður ljósmyndari til þess að taka þátt?

Nei það er nefnilega það skemmtilega við þetta…þessi námskeið eða vinnustofur eru hugsuð til þess að fleyta fólki lengra áfram í ljómynduninni. Eina er að þú þarft að kunna á þá myndavél sem þú notar, –  að hafa vald á tækinu þínu. Annars er þetta svolítið eins og að ætla að skrifa og að kunna ekki á pennann sinn.

Þú segir að þessi námskeið eða vinnustofur séu hugsuð til að „fleyta fólki áfram í ljósmynduninni“, hvað meinar þú með því?

Það að fara á svona stutt námskeið, sem stendur kannski bara í 3-4 daga en er svona “intensíft” verður til þess að þú vaknar og svona…hvað segir maður… andar ljósmyndun…sem verður til þess að þú tekur framförum sem ljósmyndari. Og þetta gildir fyrir alla sem taka þátt, bæði fyrir þá sem hafa myndað lengi og kunna mjög mikið og þá sem eru rétt að byrja. Á svona námskeiðum færðu verkefni og svo endurgjöf á það, ferð aftur og reynir að betrumbæta það sem þú hefur þegar gert. Það einhvernvegin skiptir máli að þú hefur þegar tekið þennan tíma frá til að sinna því að taka framförum. Þegar þú ert að læra ljósmyndun og vinna við ljósmyndun ertu oft svo einn með sjálfum þér en þarna færðu þetta samtal sem er svo mikilvægt til þess að þroskast og þróast sem ljósmyndari.

/sr.