Guðmundur Ingólfsson: „…ljósmyndun er svo merkileg í sjálfu sér, hún þarf ekki að vera neitt annað.“

aa

Í Vorblaði skólans sem út kom á dögunum var að finna mörg viðtöl við núverandi nemendur skólans, útskrifaða nemendur og svo nokkra kennara skólans en þeir eru fjölmargir og þar er sko sannkallað stórskotalið á ferðinni!

Einn þessara kennara er Guðmundur Ingólfsson. Hann lærði ljósmyndun hjá Otto Steinert við Folkwangschule fuer Gestaltung í Essen, Þýskalandi 1968-1971 og starfaði sem aðstoðarmaður hans um tíma eftir nám. Guðmundur hefur um langt árabil starfað við iðn- og  auglýsingaljósmyndun og rekið
ljósmyndastofuna ÍMYND síðan 1972. Hann hefur tekið ljósmyndir af ýmsum toga, sérstaklega fyrir auglýsingar og leikhús en hefur jafnframt sinnt heimildaljósmyndun þar sem gætir persónulegra stílbragða. Nálgun hans á viðfangsefnið er oft hvorutveggja skrásetning en einnig formræns eðlis. L jósmyndir hans eru því í senn persónuleg listaverk en einnig heimildir um staði, hönnun og arkitektúr. Undanfarin ár hefur Guðmundur skrásett, með svarthvítum ljósmyndum, hversdagslegar byggingar, oft iðnaðarhúsnæði, í og við Reykjavík, arkitektúr sem hverfur.  Guðmundur hefur einnig ljósmyndað íslenskt landslag á mörkum náttúrunnar og hins manngerða.

Ljósmyndir Guðmundar hafa birst í tímaritum og bókum og hann hefur tekið þátt í fjölmörgum sýningum.

Við tókum Guðmund tali nú á vordögum og spurðum hann nokkurra stuttra spurninga. Hér á eftir fer viðtalið.

Guðmundur Ingólfsson – Á eigin vegum

Hann er sennilega einn reyndasti ljósmyndari landsins og manna fróðastur um ljósmyndun, bæði hvað varðar form og tækni.  Þeir eru ófáir sem leitað hafa til Guðmundar Ingólfssonar í gegnum tíðina með hvers kyns fyrirspurnir og sjaldan komið að tómum kofanum. Við hjá Ljósmyndaskólanum höfum notið reynslu hans og þekkingar síðastliðið ár þar sem hann kennir svarthvita framköllun og prentun við skólann.

Því var hvíslað að okkur að Guðmundur væri að vinna að nýrri sýningu. Aðspurður játar Guðmundur því að sýning sé í bígerð. Titill hennar á þýsku er Ohne Auftrag eða „Á eigin vegum“ á okkar ylhýra.  Sýningin verður í Þjóðminjasafni Íslands og opnar þann 23. september næstkomandi.  Til aðstoðar við val á myndum á sýninguna hefur hann fengið til liðs við sig sýningarstjóra og vini til fjölda ára. Hér er um að ræða þau Timm Rautert og Ute Eskildsen. Ekki er hægt að skilgreina sýninguna sem yfirlitssýningu á verkum Guðmundar, því til þessa þyrfti margfalt stærra húsnæði, enda hefur Guðmundur alla tíð unnið að eigin verkefnum meðfram atvinnuljósmyndun. Þjóðminjasafn Íslands bauð Guðmundi að halda sýningu á verkum sínum í haust og mun safnið einnig, í tilefni sýningarinnar, gefa út 120 síðna sýningarskrá. Ekkert er gefið upp að svo stöddu hvernig sýningin verður uppbyggð en ljóst er að hennar verður beðið með mikilli eftirvæntingu. Við kíktum til Guðmundar á vinnustofu hans í Örfiriseynni og fengum að skyggnast aðeins inn í hugarheim hans. Eftir langt spjall um sýningarndirbúninginn, áhugaverða ljósmyndara, spennandi gallerí og margs konar ljósmyndatækni spurði ég Guðmund nokkurra spurninga um ljósmyndun almennt.

Finnst þér ljósmyndun á Íslandi hafa breyst mikið á síðustu áratugum? 

Jú auðvitað hefur hún breyst en…tækninni fleygir alltaf statt og stöðugt fram. Ljósmyndun er að fara svolítið langt frá því sem hún var upphaflega. Það ætla allir að búa til myndlist núna með stóru M-i. Það er ekki nóg lengur að þetta sé bara ljósmynd. Og þetta er ekki bara á Íslandi og liggur að hluta til í því að fólk getur ekkert unnið fyrir sér á sama hátt og áður með ljósmyndun. Þá ætla allir að búa til eitthvað sem þeir halda að þeir geti selt fólki og eitthvað sem hægt er að hengja upp á vegg sem ég held að sé stundum blekking en einhverjir munu geta það. En staðreyndin er að þetta flytur ljósmyndun líka ansi langt frá kjarnanum. Kjarninn er bara að skrá það sem gerist í kringum okkur. Menn ættu kannski aðeins að hverfa af þeirri braut að ljósmyndun sé myndlist, því ljósmyndun er svo merkileg í sjálfu sér, hún þarf ekki að vera neitt annað.

Hvað finnst þér um íslenska samtímaljósmyndun? Erum við að standa okkur jafn vel og löndin í kringum okkur? 

Við erum öðruvísi, þetta er fámennari hópur. Það er enginn sem stendur á bak við okkur eins og staðið er á bak við ljósmyndara erlendis. Þjóðir sem hafa efnast hafa tekið ljósmyndun upp á arma sína og stutt við hana eins og aðra menningu.

Lifir filman?  

Já ég held hún lifi. Hún lifir allavega mig (segir hann í gamansömum tón). Svart hvítt t.d. hefur ekkert dalað síðustu ár og heldur bætt við sig ef eitthvað er.

Breytir ljósmyndun heiminum?

Nei og það hefur hún nú aldrei gert.

/amh.

 

Linkar á fleiri fróðleg viðtöl við Guðmund: http://www.photography-magazine.net/interviews/glimpse-icelandic-photography-work-gudmundur-ingólfsson

http://www.uncubemagazine.com/blog/16448271

/sr.