Hafsteinn Viðar Ársælsson – Svartmálmur

aa

 

Sýning Hafsteins Viðars Ársælssonar – Svartmálmur í Skotinu í Ljósmyndasafni Reykjavíkur hefur vakið mikla athygli og umfjöllun en svartmálmur er íslenskun á “Black Metal”.  Á sýningunni eru meðal annars að finna myndir sem teknar eru undir formerkjum skrásetningar og skáldskapar af svartmálms hljómsveitum eins og Mismþyrmingu, Nöðru, Nyiþ, Sinmara, Svartadauða og Wormlust sem er sólóverkefni ljósmyndarans sjálfs. Samnefnd  ljósmyndabók með myndunum á sýningunni og miklu fleiri myndum af svartmálms hljómsveitum kom svo út á dögunu. Þar gerir Hafsteinn Viðar svartmálmssenunni á Íslandi all ítarleg skil. Í  bókinni eru ljósmyndir af 14 svartmálmshljómsveitum eða einstökum meðlimum þeirra og að auki úrval af textum þessara hljómsveita. Hafsteinn hefur markvisst unnið að verkinu í þrjú ár undir dulnefninu „Verði Ljós“. Hann útskrifaðist úr Ljósmyndaskólanum árið 2016.

Í fréttatilkynningu frá Ljósmyndasafninu, vegna opnunar sýningarinnar Svartmálms, segir meðal annars: Heimurinn í kringum þessa tónlistarstefnu virkar á marga sem óaðgengilegur og dularfullur og er því mjög áhugavert fyrir almenning að fá innsýn inn hann. Svartmálmur gegnir lykilhlutverki í landslagi neðanjarðartónlistar og nýtur vinsælda víða um heim. Þrátt fyrir landfræðilega einangrun hefur svartmálmstónlist blómstrað á Íslandi síðastliðinn áratug og klifið upp metorðastigann erlendis. Má þar vafalaust þakka þekktum íslenskum svartmálms tónlistarútgáfufyrirtækjum, hátíðum á borð við Eistnaflug og Oration og einnig alþjóðlega þekktum hljómsveitum sem hafa borið hróður þessarar tónlistar víða.

Í viðtali í Fréttablaðinu  4. júní 2018 segir Hafsteinn meðal annars: „Ég byrjaði að stunda ljósmyndun til að mynda hljómsveitirnar. Það var enginn að gera það,“ segir hann „Hugmyndin þróaðist út frá því að ég sá bók frá 1968-69 eftir Sigurgeir Sigurjónsson sem skrásetti íslensku psychedelic-senuna og var eins og tímahylki frá þeirri senu. Þetta fékk mig til að hugsa um svartmálmssenuna hérna, sem er svolítið vanmetin. Það var enginn að skrásetja þetta, þannig að ég ákvað bara að taka að mér það verkefni.“ Hafsteinn hefur sjálfur verið viðriðinn senuna síðan hann var 15 ára, þegar hann byrjaði að spila með svartmálmssveitinni Myrk. „Það var eiginlega fyrsta hljómsveitin mín. Síðan eru liðin 17 ár, þannig að ég hef verið í þessu í meira en helminginn af lífi mínu og held að ég verði í þessu alla ævi.“

Í sama viðtali í Fréttablaðinu segir Hafsteinn „Fyrir þetta kunni ég ekkert á myndavél, þannig að ég skráði mig í Ljósmyndaskólann með þetta í huga og bókin „Svartmálmur“ sýnir í rauninni afraksturinn,“ segir Hafsteinn. „Bókin byrjaði í desember 2014 á Andkristnihátíð og gerð hennar lauk svo í febrúar á þessu ári. Ég lærði á meðan ég var að gera hana. Ég vildi búa til hálfgert tímahylki fyrir þennan tíma í þessari senu,“ segir Hafsteinn. „Mér finnst mikilvægt að skrásetja þetta, því þetta er mikilvægt menningarlegt tímabil. Senan er líka mjög áhugaverð fagurfræðilega. Fagurfræðin bindur þetta saman án míns innleggs og hljómsveitirnar eru allar hrifnar af myndrænu táknmáli,“ segir Hafsteinn. Hann hefur unnið verkefnið undir nafninu Verði ljós. „Nafnið kemur úr Biblíunni og er vísun í tenginguna við dulspeki,“ segir hann. „Þú færð líka ekki neitt á myndina nema það sé ljós. Það er líka smá kaldhæðni á bak við að gefa þessu nafn úr kristni.“

Á meðan sýningunni stendur verður bókin Svartmálmur til sölu í safnbúð Ljósmyndasafnsins en hún er veglegur gripur  og hefur nú þegar fengið mikla umfjöllun í erlendum miðlum.  Viðtöl hafa birst við Hafstein Viðar í blöðum á borð við Washington Post  og í  tímaritum sem fjalla um þungarokksmenningu eins og Civil Nation  og tónlistartímaritunum Revolver og Kerrang. Einnig er viðtal við Hafstein í British Photo Journal. Þar segir hann meðal annars að hann hafi velt mikið fyrir sér hvernig best væri að mynda hljómsveitirnar og hvaða umgjörð mynd henta verkefninu. Niðurstaðan hafi svo verið þessi, – að stilla tónlistarmönnunum upp í náttúrunni og freista þess að ná þannig að miðla fagurfræði hljómsveitanna en jafnframt að búa til myndir sem væru sérstakar.

Hafsteinn Viðar kom í viðtal í Lestina á Rúv í tilefni af opnun sýningarinnar og ræddi þar um um verkefnið, hugmyndafræði svartmálmshljómsveita, eigin tónlistarsköpun og fleira. Hann segir að við þessa vinnu hafi hann lagt áherslu á að spegla hljómsveitirnar frekar en eigin hugmyndir þó auðvitað setji hann sinn stíl á verkefnið upp að einhverju marki. Hans hlutverk hafi verið að þjóna þeim hugmyndum sem hljómsveitirnar vildu standa fyrir. Hann hafi í undirbúningsvinnunni t.d. mikið skoðað texta hljómsveitanna og reynt að greina áherslur. Það sem einkennir myndirnar er að þær eru grófkornaðar, myrkar, dulur hylja andlit, fyrirsæturnar eru svartklæddar, reykur stígur úr iðrum jarðar og trúartákn ráða ríkjum í myndsköpuninni.

Viðtalið við Hafstein í Lestinni er fróðlegt og hægt að hlusta á það r

 

Við óskum Hafsteini til hamingju með sýninguna og bókina og hvetjum fólk til að líta við í Skotinu. Sýningin  stendur til 16. ágúst 2018.

Opnunartími Ljósmyndasafns er:

Mánudaga – fimmtudaga: 10:00 – 18:00

Föstudaga: 11:00 – 18:00

HELGAR: 13:00 – 17:00

/sr.