HEIMA ER BEST

 

Myndaröð Laufeyjar Elíasdóttur fjallar um heimilisofbeldi og er byggð á ítarlegum viðtölum við bæði þolendur og gerendur í slíkum málum. Ljósmyndirnar eru vandlega sviðsettar og opna sýn inn í falda veröld þar sem heimilið veitir ekki lengur skjól og ástúð heldur hefur umturnast af kúgun og ofbeldi, vantrausti og ótta. Laufey sýnir okkur þó ekki ofbeldið sem við kannski ímyndum okkur þegar við lesum fréttir. Í staðinn eru ljósmyndir hennar hlýjar og fallega lýstar. Það er ekki fyrr en við skoðum þær nánar og förum að lesa í smáatriðin að það rennur upp fyrir okkur ljós. Þessar hljóðlátu heimilismyndir eru gegnsýrðar af spennu og ógn. Það er engu líkara en Laufey hafi opnað dyrnar að annarra veröld þar sem öllu hefur verið snúið á hvolf, þar sem heimilið er vígvöllur en ekki athvarf og þar sem ástin hefur vikið fyrir reiði. Líkt og stillur úr kvikmynd vekja þessar ljósmyndir tilfinningu fyrir sögum sem við getum ekki ráðið í til fulls þótt við vitum að slíkar sögur gerast allt og víða.

Texti: Jón Proppé