Hjördís Eyþórsdóttir – Put All Our Treasures Together.

aa


Put All Our Treasures Together er útskriftarverk Hjördísar Eyþórsdóttur og  mun hún  gefa út bókverk í tilefni af útskrift sinni  úr Ljósmyndaskólanum. Hún safnar nú á Karolinafund til að fjármagna útgáfuna. Þar má sjá nánar um verkið og fylgjast með því í vinnslu.

Hjördís segir um verkið: Í bókverkinu er áhorfandinn leiddur í gegnum tímabil í lífi með ljósmyndum þar sem saga af rótleysi, flakki, ferðalögum og tilgangi lífsins fléttast saman. Á þessu tímabili flakkarans fylgir mikill efi um hvað kemur næst, ótti við framtíðina og hvert förinni er heitið. Sagan er ekki sjálfsævisaga ljósmyndarans. Ljósmyndirnar voru einskonar aukaafurð og saman safn af myndum úr hversdagsleikanum.

,,Það var ekki fyrr en tími fékk að líða að sagan birtist mér. Ég hafði tekið þessar myndir á þessu skrítna tímabili í lífinu mínu án þess að vera með fyrirfram ákveðna hugmynd um hver áfangastaður þeirra yrði. Verkið var svolítið til af sjálfu sér, eða alla vega mótaðist í laumi. Ljósmyndamiðilinn hefur nefnilega hjálpað mér mjög mikið að sjá meira og vera meira og hlaupa ekki eins mikið með lokuð augun í gegnum lífið mitt. Þannig þegar ég svo safnaði þessum tilgangslausu ljósmyndum saman þá átti ég allt í einu risastóran fjársjóð sem ég gerði mér enga grein fyrir að ég ætti. Ætli það sé ekki svoleiðis sem gerist með lífið – við

lifum bara dagana okkar og svo þegar maður horfir til baka eru hlutir komnir í samhengi án þess að maður gat eitthvað stjórnað þeim.

Fyrir mér fjallar verkið um fjársjóði. Bókin er saga um fjársjóðinn sem maður safnar sér saman hægt og rólega með hverjum degi sem maður lifir.”

 

Hægt er að fylgjast með Hjördísi á Instagram.

/sr.