Hvassast – rannsókn á íslenskum hversdegi með ljósmyndina að vopni.

aa

 

hvassast_book_01

Hallgerður Hallgrímsdóttir gaf á dögunum út bókina Hvassast. Á bókarkápu segir Hallgerður svo: “Hvassast er rannsókn á íslenska hversdeginum. Samansafn eilífra augnablika, fjalla sem ekki gjósa, óræðra veðarbrigða og endurtekinna daga. Miðill ljósmyndarans er hinn skáldaði raunveruleiki þar sem ljómyndin er ekki svar heldur möguleiki. Verkið sýnir fast land og breytilegt, áferðir, skýjafar og svefnóra. Við erum viðkvæm í návígi við alla þessa náttúru og ónáttúru, sem við sveipum okkur í. Eins og ekkert sé sjálfsagðara.”

Myndir úr bókinni hanga á Kaffitári í Safnahúsinu við Hverfisgötu, fram í byrjun desember. Bókin fæst í safnabúðinni þar, í Ljósmyndasafni Reykjavíkur og í vel völdum Eymundsson-verslunum.

Við hittum á Hallgerði, óskuðum henni til hamingju með bókina og áttum við hana stutt spjall.

 Segðu okkur frá þessu nýja verki þínu Hvassast.

“Verkið er ljósmyndaleg rannsókn á íslenskum hversdegi. Ég reyni að ná fram ákveðinni stemningu eða tilfinningu, tilfinningunni fyrir þessu landi sem getur verið svo fallega viðburðasnautt, skrítið og ofurvenjulegt. Ég dró því fram myndavélina þegar mann myndi kannski síst detta það í hug, fyrir hádegi á gráustu þriðjudögunum eða á svefndrukknum sunnudögum. Þannig vildi ég ekki fanga hið dramatíska land sem ferðamenn flykkjast til heldur hina hljóðlátu og kannski dálítið sérvitru hlið eyjarinnar.

Myndirnar eru teknar víðsvegar um Ísland, frá höfuðborg að Langanesi, frá fjallstoppi og niður í fjöru og sýna bæði náttúru og manngert umhverfi.

Í Hvassast held ég líka áfram að skoða ljósmyndamiðilinn en ég er sífellt að velta honum fyrir mér og reyna að skilja hvernig hann virki, þótt ég voni eiginlega að ég muni aldrei komast að endanlegri niðurstöðu. Þannig held ég áfram að stefna saman mismunandi „formötum“, stærðum, tækni og stílum en ég vil minna áhorfandann á að ljósmynd er ekki sannleikur heldur ákveðin túlkun á augnabliki. Og heilt lag bætist síðan ofan á þegar hún er lesin af áhorfanda sem kemur að henni með sitt menningarlega uppeldi og persónulegu reynslu.”

 Veðurtilvísanir eru áberandi í verkum þínum. Hver er ástæða þess?  

“Veður og birta eru náskyld fyrirbæri og veðráttan hér er bæði það frábærasta og erfiðasta við að vera ljósmyndari á Íslandi. Í Hvassast eru þessar tilvísanir kannski enn meðvitaðri og sterkari en í fyrri verkum. Veðurfréttirnar eru einskonar „soundtrack“ hversdagsins á Íslandi. Við sem lifum í þessum hversdegi tölum líka mikið um veðrið og því er gífurlega mikið af fallegum og áhugaverðum veðurorðum í íslensku. Svo mikið að oft fáum við orð lánuð þaðan til að lýsa fólki eða tilfinningum. Til dæmis eru ofsi og sori gjarnan notuð í öðru samhengi en veðurfarslegu.”

 Er veður eitthvað sem þú heldur áfram að vinna með?

“Svo lengi sem ég vinn verk á Íslandi þá held ég að veðrið muni koma við sögu.”

 Hvað ertu að fást við núna?/ Hvað er framundan hjá þér? sýningarhald, frekari útgáfa…..?

“Ég er að byrja að vinna nýtt verk sem verður á mun persónulegri nótum en það sem ég hef gert hingað til. Líklegast mun ég sýna það á næsta ári en sem stendur ætla ég að einbeita mér að því að vinna verkið, svo finnur það sér staði og leiðir þegar það er tilbúið.

Bókarmiðillinn er ótrúlega spennandi, enda hægt að sérsníða bókarformið að verkinu hverju sinni og auðvitað eðli ljósmynda að vera fjölfaldaðar. Það leynast því alltaf nokkrar bókahugmyndir í mínum vösum.”

 

hvassast_book_03  hvassast_book_06 hvassast_book_05  hvassast_book_07

/sr.