Katrín Elvars: Ljósmyndahátíð og fleira.

aa

 

Katrín Elvars segir frá Ljósmyndahátíð, eigin verkum og ýmsu öðru

Katrín Elvarsdóttir ljósmyndari hefur haldið sýningar á verkum sínum víða. Hún hefur hlotið margháttaða viðurkenningu og verðlaun fyrir þau, bæði á Íslandi sem og á alþjóðavettvangi. Einnig hafa verið gefnar út bækur með verkum Katrínar, hún sinnt sýningarstjórnun og setið í nefndum og ráðum er varða sjónlistir. Hún situr nú meðal annars í stjórn Ljósmyndahátíðar Íslands. Hún er félagi í FÍSL, Félagi íslenskra samtímaljósmyndara. Katrín hefur einnig kennt ljósmyndun víða og er einn kennara Ljósmyndaskólans. 

Mig langaði að byrja á að biðja þig að segja mér aðeins frá Ljósmyndadögum, eða Ljósmyndahátíðinni

Ljósmyndadagar voru haldnir fyrst í janúar 2012 og svo aftur 2014, en dagarnir hafa nú vaxið úr grasi og þróast í hátíð sem við köllum Ljósmyndahátíð Íslands (www.tipf.is). Fyrsta hátíðin var haldin í janúar 2016, og næsta Ljósmyndahátíð verður haldin í janúar á næsta ári. Hátíðin er opin almenningi og verða sýningar með erlendum og íslenskum listamönnum opnaðar í flestum söfnum á höfuðborgarsvæðinu af tilefni hennar. Ljósmyndabækur verða kynntar og erlendir fyrirlestrar verða í boði. Þá verður erlendum og innlendum safnstjórum, sýningarstjórum og fagfólki í greininni boðið til landsins til að taka þátt í ljósmyndarýni, sem gefur íslenskum listamönnum tækifæri til að kynna sín verk og hugsanlega komast í samband við söfn og gallerí erlendis. Til stendur að halda Ljósmyndahátíð Íslands í janúar annað hvert ár.

Þannig að Ljósmyndahátíð verður þá næst í janúar 2018 – er eitthvað frekar komið í ljós varðandi sýningar eða aðra viðburði í tengslum við þá hátíð?

Já, hátíðin verður stærri en áður, það eru fleiri söfn og sýningarstaðir sem koma til með að taka þátt. Við fáum þekkta ljósmyndara bæði frá Danmörku og Finnlandi til að sýna, svo verða eins og áður samsýningar og einkasýningar með verkum íslenskra ljósmyndara.Við munum leggja sérstaka áherslu á norrænt samstarf að þessu sinni og bjóðum safn- og sýningarstjórum frá helstu ljósmyndahátíðum í Skandinavíu í ljósmyndarýnina.

Á vegum hverra er Ljósmyndahátíðin haldin?

Ljósmyndahátíð Íslands er sjálfstæð eining en á sér auðvitað fjölmarga samstarfsaðila sem með einum eða öðrum hætti koma að skipulagningu og framkvæmd þessa stóra viðburðar. Sams konar hátíðir má finna í flestum höfðuborgum Evrópu og hér er Ljósmyndahátíð Íslands einstaklega mikilvægur þáttur í því að efla tengsl íslenskrar ljósmyndunar við alþjóðlegan ljósmyndaheim og að kynna ljósmyndina sem listform fyrir almenningi. Allar frekari upplýsingar um Ljósmyndahátíð er hægt að finna á síðu hátíðarinnar, www.tipf.is.

En hvað ert þú að fást við núna, Katrín, ertu að vinna að sýningu?

Já, ég er með nokkur verkefni í gangi – flest þeirra eru erlendis. Næsta sýning sem ég tek þátt í er Human; Nature í Martin Asbæk-galleríi í Kaupmannahöfn, sem verður opnuð um miðjan maí. Síðan verð ég með ný verk á sumarsamsýningu FÍSL sem verður opnuð í Miklagarði á Höfn í Hornafirði í júní nk. Ég er líka að sýningarstýra sýningunni This Island Earth sem verður opnuð í ágúst í Galleri Image í Árósum í Danmörku. Svo mun ég setja upp sýningu með íslenskum ljósmyndabókum á Photobook Week Arhus sem verður opnuð í haust.

Á næsta ári verð ég með einkasýningu í Lunder Arts Center í Boston og samsýningu í Forum Box, Helsinki.

Hvernig sérð þú ljósmyndun? Hvað er það sem þú vilt segja með verkum þínum?

Ljósmyndin er auðvitað fjölhæfur miðill. Mín myndlist fjallar gjarnan um hversdaglega hluti sem ég gef nýja merkingu með því að setja þá í nýtt samhengi sem síðan má skapa óræða frásögn í kringum. Myndefnið er oftast manngert umhverfi, allt frá landslagi til portretta og mynda af híbýlum. Ég reyni að skapa tilfinningar í verkunum sem ágerast eftir því sem maður dvelur lengur í myndheiminum; til þess nota ég ýmsar aðferðir – myndbyggingu, lýsingu, og endurtekningu í litum og áferð. Verk mín endurspegla mína eigin upplifun og ímyndunarafl, frekar en að vera skrásetning á raunveruleikanum.

 Getur ljósmyndun breytt heiminum?

Hún hefur þegar gert það; augljós dæmi um það er hvernig áhrif hún hafði á málaralistina, prentlistina og fjölmiðla í upphafi síðustu aldar. Ljósmyndir hafa reynst einræðisherrum jafnt og öðrum mikilvæg tækni í áróðursherferðum, og svo auðvitað gjörbreyttu ljósmyndir af Jörðinni utan úr geimnum sýn okkar á lífið og plánetuna. Ljósmyndin var á sínum tíma gjörbylting í upplýsingamiðlun, en hvernig hún þróast í framtíðinni er erfitt að segja. En við getum verið nokkuð viss um að hún muni halda áfram að endurspegla fjölbreytni mannlegs samfélags og samskipta á næstu árum og áratugum.

/sr.