Katrín Elvarsdóttir sýnir í Berg Contemporary

aa

 

Sýning Katrínar Elvarsdóttur  í Berg Contemporary stendur til  3. ágúst 2018. Nefnist hún Leitin að sannleikanum. 

Katrín Elvarsdóttir hefur á síðustu fimmtán árum unnið sér sess sem einn fremsti ljósmyndari landsins og átt ríkan þátt í að breyta viðhorfi til ljósmyndunar sem listmiðils hér á landi. Á sýningunni í BERG Contemporary fjallar Katrín bæði um óljós mörk ímyndunar og veruleika og um það hvernig minningar okkar eiga það til að fjarlægast raunveruleikann hægt og rólega þar til eitthvað í umhverfinu, óvænt snerting við efni, sjónhending eða hljóð, verður til þess að vekja hið liðna til lífsins segir í kynningartexta með sýningunni í Berg Contemporary

Á heimasíðu Berg Contemporary skrifar Sigrún Alba Sigurðardóttir um verk Katrínar.

Katrín var á dögunum í viðtali hjá Guðna Tómassyni í Víðsjá og segir þar meðal annars að yfirskriftin að sýningunni sem nú stendur í Berg Contemporay komi frá manni  sem hét Martinus Simson, sem bjó og starfaði á Ísafirði. Titillinn sé raunar nafn á grein eftir Simson sem hún hafi rekist á og að titillinn hafi höfðað til hennar. Simson þessi fékkst við ýmislegt, var ljósmyndari og garðyrkjumaður, skrifaði mikið um andleg málefni og heimspeki en gerði einnig ýmislegt fleira, gerði meðal annars þessar styttur sem eru hluti viðfangsefnis Katrínar á sýningunni í Berg Contemporary.

Katrín er fædd og uppalinn á Ísafirði en flutti þaðan þegar hún var níu ára. Katrín segir að þegar hún hafi komið aftur í bæinn, mörgum árum seinna, hafi hann verið svo breyttur.  „Kirkjan hafði brunnið og ný byggð í staðinn. Gamla sjúkrahúsið var orðið safn og bókasafn og kominn nýr spítali í staðinn. Þetta var einhvern veginn ekki sami bærinn og ég þurfti þá að leita að hlutum úr minni æsku. Þar voru þessar styttur sem Simson gerði á sínum tíma bæði fyrir utan sundlaugina og í Simson garðinum inn í Tungudal. Frá 1998 hef ég síðan verið að mynda þessar styttur og hef verið að því undanfarin 20 ár.“ Myndirnar af styttunum eru bæði myndir sem teknar eru fyrir mörgum árum og svo nýrri myndir sem teknar eru með sýningu í huga.

„Það er flókið að útskýra hvað heillar mig við þær en þetta liggur rosalega djúpt í mér og hefur fylgt mér. Mér fannst áhugavert að reyna að persónugera þetta, sýna verkin eins og lifandi fólk í landslagi. Það er óljóst hvar maður er staddur og þá verður þetta meira eins og fantasía eða eitthvað land sem er ekki til.“ segir Katrín í viðtalinu í Víðsjá.

Á sýningunni eru líka myndir af ýmsum gististöðum hennar undanfarin ár og þar endurspeglast fyrst og fremst tilfinningin fyrir mannvist þó að þar sé enga manneskju að sjá „Aftur getur þú ekki séð á myndunum hvar þær eru teknar. Þessir gististaðir mínir eru því teknir úr samhengi. Sýningin tengist því öll mér persónulega.“

Við mælum með að fólk hlusti á viðtalið  við Katrínu í heild sinni og láti sýninguna  í Berg Contemporary ekki fram hjá sér fara.

Katrín er einn af kennurum Ljósmyndaskólans.

/sr.