Kristina Petrošiutė: Ljósmyndun er leið til að deila með öðrum.

aa

 

Kristina Petrošiutė útskrifaðist úr Ljósmyndaskólanum árið 2015 og hefur síðan þá unnið við ljósmyndun með ýmsum hætti. Auk þess að hafa hana að atvinnu hefur Kristina einnig sinnt eigin listsköpun og fengist við kennslu. Persónuleg myndverk hennar spanna allbreytt svið en segja má að sterkt einkenni þeirra sé að þau fjalla með einhverjum hætti um það sem sett er til hliðar, dæmt ónýtt eða einskis nýtt. Kristina hefur haldið sýningar bæði á Íslandi og erlendis, tekið þátt í samsýningum og hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín. Kristina er einn af kennurum skólans og kennir myrkraherbergisvinnu.

Kristina útskrifaðist úr Ljósmyndaskólanum árið 2015 og hefur síðan þá unnið við ljósmyndun með ýmsum hætti. Auk þess að hafa hana að atvinnu hefur Kristina einnig sinnt eigin listsköpun og fengist við kennslu. Persónuleg myndverk hennar spanna allbreytt svið en segja má að sterkt einkenni þeirra sé að þau fjalla með einhverjum hætti um það sem sett er til hliðar, dæmt ónýtt eða einskis nýtt. Kristina hefur haldið sýningar bæði á Íslandi og erlendis, tekið þátt í samsýningum og hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín. Kristina er einn af kennurum skólans og kennir myrkraherbergisvinnu.

Nú ert þú fyrrverandi nemandi í Ljósmyndaskólanum, Kristina, og gott dæmi um að það er líf eftir Ljósmyndaskólann. Hverju breytti veran í Ljósmyndaskólanum fyrir þig?

„Já … það breytti öllu eiginlega, … bara öllu.“ Kristína hlær björtum hlátri. „Þegar ég fyrst kom hingað þá vissi ég ekki hvað ég vildi gera. Mér fannst ljósmyndun áhugaverð en ég vissi svo sem ekki neitt um ljósmyndun. Þegar ég svo byrjaði að læra opnaðist fyrir mér nýr heimur, alveg ótrúlega stór, mér leið eins og að hausinn á mér væri að springa. Það var svo mikið af upplýsingum sem ég fékk í einu og svo margt nýtt sem ég uppgötvaði. Enn þá veit ég ábyggilega ekki nema 1% af því sem hægt er að vita um ljósmyndun. Það er eins og að eftir því sem þú lærir meira eða veist meira um eitthvað þá áttar þú þig á hvað þú veist í raun lítið. En … já, það að kynnast ljósmyndun breytti eiginlega skilningi mínum á því hvernig ég gæti varið lífi mínu.“

Hvað er ljósmyndun fyrir þér?

Kristina hugsar sig um í dálitla stund og segir svo: „Ljósmyndun fyrir mér er kannski leið til að deila með fólki. Auðvitað að deila augnablikum með ástvinum en einnig að deila hugmyndum og hugsunum og því sem hefur áhrif á mig. Ég er ekki svo góð í að eiga við orðin en í gegnum ljósmyndir get ég deilt með fólki hugmyndum og hugsunum. Eiginlega eru ljósmyndir þá svona eins og tungumál … að deila með augunum í staðin fyrir með orðum. Þannig að það er eitt, en svo tek ég líka myndir til að muna, til að muna áhrif eða hugmynd eða jafnvel tilfinningu, það sem gerir augnablikið töfrandi. En ljósmyndun svona almennt séð er auðvitað mjög stórt fyrirbæri og erfitt að skilgreina hana og kannski ómögulegt.“

En segðu mér nú, Kristina, breytir ljósmyndun heiminum? Á hún að gera það?

Já, já, já, ekki spurning, ljósmyndun breytir heiminum,hún gerir það alla daga það er augljóst á margan hátt. Ég er frá Litháen og þar er mikil andstaða gegn samkynhneigð.Mér finnst mjög sársaukafullt að verða vitni að þessu viðhorfi t.d. þegar ég fer í heimsókn þangað. Ég hugsaði, hvernig er eiginlega hægt að breyta þessu? Hvað get ég gert núna til þess? Áður en ég svara þessu beint langar mig að segja eina litla sögu.

Í fyrrasumar kom vinkona mín frá Litháen í heimsókn til mín hingað en við höfum oft rætt þetta og hún oftsinnis lýst andstöðu sinni við giftingar samkynhneigðra og það að svoleiðis væri yfirleitt leyfilegt. Svo á meðan hún var hjá mér þá vantaði mig aðstoðarmanneskju við brúðkaupsmyndatöku og ég bað hana um að koma með mér, en sagði henni ekki alveg strax að um væri að ræða brúðkaup tveggja kvenna.  Í sem stystu máli þá eru þær núna allar bestu vinkonur og halda sambandi. Vinkona mín skipti sannarlega um skoðun! Það breytti skoðun hennar að taka þátt í þessari einu brúðkaupsmyndatöku – að verða vitni að fallegu brúðkaupi þessara kvenna.

Í kjölfar þessa fékk ég ákveðna hugmynd um það hvernig ég gæti kannski stuðlað að breyttri afstöðu fólks til samkynhneigðar. Ég vinn mikið fyrir PinkIceland og það koma pör alls staðar að úr heiminum til að gifta sig hér á Íslandi. Hvernig er ekki hægt að hrífast með þegar ástfangið fólk er að ganga að eiga hvort annað og er svona hamingjusamt? Og svo er þetta dásamlega íslenska landslag bakgrunnur viðburðarins. Þetta er svo fallegt og svo mikil hamingja. Hvernig er bara hægt að hata það að samkynhneigðir gangi í hjónaband?

Ég er með þá hugmynd að fá í lið með mér fleiri ljósmyndara sem vinna fyrir PinkIceland og að niðurstaðan verði samsýning sem sett verður upp í Litháen. Ég er viss um að einhverjir breyta viðhorfi sínu þegar þeir sjá þessar myndir og svo er allt í lagi þó að fólk geri það ekki … kannski bara nóg að einhverjir séu einu litlu skrefi nær því að breyta um álit eftir að hafa séð myndirnar.“

Þetta er skemmtileg saga, Kristina. Verður gaman að heyra af viðtökunum, en nú veit ég að þú opnaðir nýlega sýningu í þínu heimalandi. Segðu mér aðeins frá því. Hvað ertu að sýna þar og hvernig kom það til?

Það sem ég er að sýna þar er það sem ég sýndi í Ramskram á Njálsgötunni hérna síðastliðið haust. Það er svolítið erfitt fyrir mig að segja að þetta sem ég er að sýna þarna sé mín vinna, svona strangt til tekið. Heldur eru þetta verk sem eru orðin til vegna þess að náttúran, eða hið eðlilega ferli eyðileggingarinnar, er að störfum.Verkin byggja á því að einhver bjó til kvikmynd fyrir löngu og filmurnar voru í áratugi geymdar í einhvers konar safni fyrir slík verk. Og svo kom ég eiginlega til að „dokumentera“ ferlið sem á sér stað þegar filmur hafa verið lengi í geymslu. Eftir að ég gerði þetta voru filmurnar reyndar svo brenndar þannig að þær eru ekki til lengur. Sem er mjög leitt. Þetta er eiginlega svona minning um eitthvað sem var og mig langaði að deila með öðrum.

Ég hugsaði mikið um það hvernig ég ætti að setja þetta efni fram til að áhorfandinn tengdi við það. Ég rannsakaði bæinn og sögu hans og fann nokkrar leiðir til framsetningar sem mér fundust að gætu hentað þarna og tengdust hlutum eða hugmyndum sem mér þótti líklegt að bæjarbúar myndu tengja við. Þarna í þessum bæ, Kaunas, voru t.d. lengi framleidd sjónvörp og ég notaði þá tegund sjónvarps til að sýna vídeóverk sem ég var með.

Ég held að þetta hafi alveg virkað allt á endanum. Þetta var mín fyrsta sýning í Litháen og það var sá sem kynnti mig fyrir þessum gömlu kvikmyndum sem stóð fyrir því að mér var boðið þarna með sýninguna. Hún var sett upp í galleríi sem gæti kallast Kaunas listamannahús.Viðburðurinn var í tengslum við kvikmyndahátíð sem helguð var gömlum kvikmyndum.

Þegar þú klárar Ljósmyndaskólann þá væntanlega hefur þú haft plön um hvað þig langaði að gera í framhaldinu? Hvernig hefur þér gengið að láta draumana þína passa við raunveruleikann?

Já, það var alveg erfitt eftir að ég útskrifaðist, ég ætla ekki að neita því … þú ert náttúrlega svona svolítið eins og nýfæddur. En svo bara stækkar maður og þroskast eins og gerist í lífinu. Held það skipti mjög miklu máli að vera forvitin og prufa nýja hluti. Ég hef oftsinnis tekið einhver verkefni sem mér finnast ekkert sérstaklega spennandi, þannig séð en það er samt gott, allt þetta ólíka sem þú gerir, það er reynsla og það gerir manni gott þegar upp er staðið. Stundum tekur maður líka verkefni sem ekki eru borguð bara af því að það er eitthvað sem manni finnst mikilvægt. Það er líka gott. Já, mínar leiðbeiningar til þeirra sem útskrifast eru kannski bara; verið ekki hrokafull, verið forvitin. Haldið áfram að gera tilraunir og leika ykkur. Eftir að námi lýkur er stundum eins og að fólk hætti að gera tilraunir en það er mikilvægt að prófa nýja hluti og leika sér.

Hvað er fram undan hjá þér?

Já, það er nú margt, ég er að vinna að alls konar ólíkum verkefnum. Það kostar mig mikil ferðalög en ég nýt þess. Ég flakka mikið núna á milli þriggja landa; Svíþjóðar, Íslands og Litháen. Mér finnst ég mjög heppin. Ég vinn svo líka mikið fyrir PinkIceland sem er frábært tækifæri fyrir mig og svo er ég að vinna að heimildaverkefni og einnig að vinna að nokkrum sýningum.

/sr.