Laufey Elíasdóttir opnar sýninguna Melankólíu í Skotinu á Ljósmyndasafni Reykjavíkur á Menningarnótt.

aa

 

Melankólía er yfirskrift sýningar Laufeyjar Elíasdóttur sem opnuð verður á Menningarnótt í Skoti Ljósmyndasafns Reykjavíkur. Þar sýnir hún myndir sem teknar eru á Porta 400 asa litfilmu með Hasselblad ljósmyndavél.

“Einu sinni var stelpa sem varð sorgmædd og gerði alla aðra svo sorgmædda í kringum sig að sorgin ríkti. Svo hún fór að hugsa hvað hún gæti gert en hún gat ekkert gert. Stelpan vissi ekki hvernig henni datt í hug að leita til listarinnar. Það hlaut að hafa komið í draumi. En alltíeinu var hún komin með ljósmyndavél í hendurnar og farin að taka myndir af allskonar fólki sem gerði útá að hafa andlit. Og þá sást sorgin í andliti þeirra, kannski bara augnkrók eða vipru, einni hrukku, augnlokinu, eða handarbaki. Maður fer og leitar í listinni. Því listin er þessi brunnur sem geymir allt, dæmir ekki, gagnrýnir ekki, elskar allt, flassar.” –Elísabet Kristín Jökulsdóttir rithöfundur og ljóðskáld.

Laufey útskrifaðist úr Ljósmyndaskólanum í janúar 2017. Útskriftarverkefni Laufeyjar „Heima er best“ fjallaði um heilmilisofbeldi og var það unnið upp úr viðtölum sem leikhópurinn hennar, RaTaTam, tók við þolendur og gerendur ofbeldis. Sýningin SUSS! var frumsýnd í Tjarnarbíói í október 2016 og svo í Kaupmannahöfn í maí 2017. Ljósmyndasýningin var sett upp samhliða leiksýningunni í Kulturhúsinu í Valby. Teater V.

Nánar má fræðast um verk hennar á heimasíðunni www.eliasdottir.com  og um sýninguna og sýningartíma á vef  Ljósmyndasafns Reykjavíkur. Sýningin stendur til 10.nóvember 2017.

 

/sr.