Listakona vikunnar – Lovísa Fanney Árnadóttir – Hvar er Halli?

aa

Listamaður/listakona vikunnar hefur vegg í húsnæði skólans til umráða í eina viku og getur notað hann að vild sem tilraunastofu til að birta verk sín. Það er Lovísa Fanney Árnadóttir sem er listamaður vikunnar að þessu sinni. Hún er nemandi á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1.

              

Lovísa Fanney segir þetta um verkið Hvar er Halli?

Í upphafi Covid-19 faraldursins var ég búsett í miðbæ Reykjavíkur, skammt frá Hallgrímskirkju. Með stuttu millibili missti ég tvö störf og hafði því allt í einu ekkert fyrir stafni dag hvern. Ég brá því á það ráð að fara út að hlaupa annan hvern dag um tóman miðbæinn. Sem uppalinn Kópavogsmær þótti mér miðbæjargötukerfið flókið og í hlaupatúrum mínum greip ég mig oft við það að leita að turni Hallgrímskirkju og hugsa “Hvar er Halli?”, því þangað var jú förinni heitið í lokin.

Verkið heitir „Hvar er Halli?“ og er þróað út frá hugmynd sem kviknaði í fyrrnefndum hlaupatúrum. Hugmyndina hafði ég sem plan B í tveimur áföngum á síðustu önn; í Aðferðir við listsköpun hjá Spessa og svo í Samtímaljósmyndun hjá Pétri Thomsen. Ákvað ég því að láta verða af verkinu upp á eigin spýtur nú þegar ég hef lært rosalega margt og nytsamlegt í skólanum.

Myndirnar eru skotnar á 35mm svarthvíta filmu, en ég hef lengi verið heilluð af filmunni og ákvað því að notast við hana og ögra sjálfri mér á sama tíma, þar sem filmu ferlið er vissulega flóknara en það stafræna.