Listamaður vikunnar – Einar Óskar Sigurðsson – RYÐ

aa

Listamaður vikunnar hefur vegg í húsnæði til skólans til umráða í eina viku og getur nýtt plássið þar að vild til að sýna verk sín.

Listamaður vikunnar að þessu sinni er Einar Óskar Sigurðsson, nemandi á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 2. Sýnir hann verkið sitt RYÐ,  sem er afrakstur úr vinnustofunni Ferðalag sem nú er nýlokið. Í þeirri vinnustofu  unnu nemendur með ljósmyndaranum Friðgeiri Helgasyni og kynnti hann þeim með al annars ýmsar aðferðir við ferðalagið sem leið til listsköpunar.  Að bregðast við hinu óvænta og að forma úr þeim efniviði sem til staðar er, sögu eða frásögn. Að vinna með aðstæður og umhverfi og að þjálfa það að horfa og leita að viðfangsefnum á leiðinni voru allt viðfangsefni  vinnustofunnar enda segir Friðgeir: „Landslag er ferðalag“. Nemendur rannsökuðu einnig ýmis verk sem unnin eru með þessari aðferð, bæði bókverk og kvikmyndir og fóru  í ferðalag með Friðgeiri um Reykjanes.

Einar Óskar segir eftirfarandi um verkið sitt RYÐ.

Verkið er gagnrýnin sjálfsskoðun á þekkingarleysi mínu á landslagsljósmyndun og fordómum gagnvart Reykjanesi eins og það leggur sig. Mér hefur verið í nöp við þennan hluta landsins frá blautu barnsbeini og þótt lítið til þess koma. Aðspurður hefði ég lýst Reykjanesi í einu orði sem „ljótu“ og sagt ég væri lítið fyrir landslagsljósmyndun, þætti hún „leiðinleg“. Vonandi er afstaða mín gagnvart landslaginu á Reykjanesi röng og afstaða mín til landslagsljósmyndunar fáfræðin ein. Hvernig og hvar verður fegurð hlutanna til?

Ljósmyndun er fullkomið tæki til þess að skoða hlutina í víðara samhengi og læra. Ég valdi að fara hægt yfir og ferðast um Reykjanesið rannsakandi. Það var mikilvægt fyrir mig að festa myndirnar á filmu og vinna þær vandlega. Ég setti mér verklagsreglur sem hægðu á mér í ferlinu og þvinguðu mig til þess að dvelja á staðnum og líta gaumgæfilega í kring um mig. Hvert viðfangsefni fengi aðeins tvo til þrjá ramma, ég þyrfti að klára í það minnsta 4 rúllur af filmu og ég skildi reykja í það minnsta eina sígarettu áður en myndavélin færi á þrífótinn.

Myndirnar sem urðu fyrir valinu sýna forvitnilega hluti og sjónarhorn sem vöktu athygli mína á þessu ferðalagi. Það er gott að staldra aðeins við og líta í kring um sig áður en maður smellir af, því landslagið leynist víða og fegurðin líka.

Á svipstundu verður „ljótt“ ægifagurt og „leiðinlegt“ verður hin mesta skemmtun.

  

/sr.