Listamaður vikunnar – Hrafnhildur Jóna Ágústsdóttir – Heima

aa

Listamaður vikunnar hefur vegg í húsnæði til skólans til umráða í eina viku og getur nýtt plássið þar að vild til að sýna verk sín.

Listamaður vikunnar að þessu sinni er Hrafnhildur Jóna Ágústsdóttir, nemandi á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 2. Sýnir hún verkið Heima.

Hrafnhildur Jóna segir eftirfarandi um verkið:

Nafnið á verkinu er tvíþætt, sem hluti af nafninu Heimaey, en þar fæddist ég og  einnig til að sýna að þarna átti ég heima.

Á þremur dögum fór ég í ferðalag á veraldlega staði og inn í eigin minningar. Ég fór í leikfimi og hljóp berfætt um ganga íþróttahússins á meðan húsvörðurinn æpti á mig. Ég labbaði í skólann og mætti í tónlistartíma. Ég fór í leikskólann og greip skemmtilegasta dótið. Ég fór að leika niðri á höfn og fór mér á voða í öllu draslinu þar. Þetta gerði ég allt saman í huganum á meðan ég beindi myndavélinni að því sem ég sá.

Ég horfði á alla þessa staði með tvennt í huga, að ferðast um eigin æsku og til að sýna staðina eins og þeir birtast mér í dag. Ég er enn barnslega forvitin og elska að vera þannig sem ljósmyndari, ég sé eitthvað sniðugt og tek mynd. En ég hef einnig þjálfað auga og aga sem barnið í mér hafði ekki. Saman virkuðu þessar hliðar á mér í því að gera þetta verk að því sem það er.

Ég sá enn betur á þessu ferðalagi mínu aftur í tímann, að ég á ekki lengur heima á þessari eyju. Ég þekki hvern krók og kima og á ættingja þarna. En ég finn ekki lengur fyrir andlegum tengslum við þennan stað. Ég held að með þessu verki sé ég að leita aftur til æskunnar sem var það eina sem ég tengi við Vestmannaeyjar, við Heimaey áður en ég hegg á þá taug.

Hægt er að skoða fleiri verk Hrafnhildar Jónu  á Instagram og á slóðinni https://gillimann.wixsite.com/hrafna

/sr.