Listkona vikunnar – Sunna Ben – NORNIR

aa

Listamaður/listakona vikunnar hefur vegg í húsnæði skólans til umráða í eina viku og getur nýtt plássið þar að vild til þess að sýna verk sín.

Í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu eru verkin þó núna eingöngu til sýnis á netinu.

Listakona þessarar viku er Sunna Ben nemandi á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1. Sýnir hún verkið Nornir, verk sem hún vann í vinnustofunni Portrettseríur  undir handleiðslu Spessa fyrr á þessu námsári.

Sunna segir um verkefnið:

Undanfarna mánuði hef ég verið að vinna að ljósmyndaverkefni um íslenskar Nornir.

Verkefnið hófst í portrettvinnustofu hjá Spessa í Ljósmyndaskólanum og ég hefði látið mér duga  eina norn. Ég byrjaði á því að auglýsa eftir fólki sem skilgreindi sig sem nornir í samfélagsmiðlahóp fyrir galdra á Íslandi, ég vonaðist til þess að fá einhver svör, en óraði aldrei fyrir því hvað ég myndi fá mörg svör! Það höfðu tugir norna og ástvina norna samband við mig og tókst mér að mynda 15 nornir á fyrstu tökudögum fyrir verkefnið.

Myndatökurnar heppnuðust vel og myndefnið er sterkt og forvitnilegt, þó ég segi sjálf frá.

Myndirnar tek ég á Mamiya RZ67 medium format filmuvél í stúdíói. Hver norn fær eina filmu, eða 9 myndir, og við vonumst eftir að ná einum fullkomnum ramma, í flestum tilfellum hefur það tekist vel.

Þar sem ég fékk svona góðar viðtökur og mikið af spennandi viðfangsefnum gáfu kost á sér ákvað ég að halda áfram með verkefnið sem er eiginlega í fasa 2.5 núna. Ég myndaði u.þ.b 1 norn á viku þangað til samkomubannið skall á og iða öll að komast aftur í stúdíóið og mykraherbergið þegar því verður lokið. Ég er með nokkrar nornir á biðlista og bið allar nornir sem kunna að reka augun í þetta að hafa samband við mig, ég hef alltaf pláss fyrir fleiri!

Eins stendur til að stækka verkefnið. Ég er að fara að mynda fleiri athafnir, altari og þess háttar, er tengist nornum. Eins dreymir mig um að komast út fyrir landsteinana að skoða galdramenningu. Það að sökkva mér í nornamenningu á Íslandi hefur svo sannarlega ekki dregið úr áhuga mínum á efninu!

Ég birti reglulega nornir á Instagram síðu minni: www.instagram.com/sunnaben og mun bráðlega birta þær á vefsíðunni minni, en þar er nóg annað að skoða: www.sunnaben.org