Ljósmyndaskólinn – A-G

aa

Uppskeruhátíð Ljósmyndaskólans var haldin dagana 10. -12. maí síðastliðinn. Þar sýndi Svanhildur Gréta Kristjánsdóttir, nemandi á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1, verk sem hún nefnir A – G en þar fjallar hún um þyngd brjósta. Og hver skyldi nú vera tengingin á milli appelsínugulra hælaskóa og brjóstaþyngdar?

Við spurðum Svanhildi nánar út í verkið.

„Hugmyndavinna að verkinu var unnin í áfanganum Persónuleg heimildaljósmyndun hjá Einari Fal fyrr í vetur.  Þar túlkaði ég tilfinninguna sem konur í minni fjölskyldu bera gagnvart því að vera með stór brjóst. Byrgðina og óþægindin sem fylgir þeim. Það hafa margar konur í fjölskyldunni farið í brjóstaminnkun vegna óþæginda eins og bakverkja, hausverkja, vöðvabólgu og fleira.“

Svanhildur ákvað að taka hugmyndina áfram í  síðasta áfanga annarinnar, Lokaverkefni en í þeim áfanga vinna nemendur áfram eitthvert af þeim verkefnum sem þeir hafa unnið í náminu á námsárinu, taka það lengra eða endurbæta það og njóta við það handleiðslu kennara.

Niðurstaða Svanhildar í þeirri vinnu varð verkið A-G,  ljósmyndasería af hlutum sem vega það sama og brjóst í ákveðinni skálastærð. Myndunum er raða frá skálastærðinni A-G og má þannig gera sér í hugarlund um hvernig það er að bera brjóst í tiltekinni stærð. „Ég vildi gefa áhorfandanum tækifæri til að setja sig í þessi spor. Þó svo það liggi allskyns tilfinningar að baki verkinu þá vildi ég líka halda léttleika og hafa smá lit og húmor í þessu.“

Svanhildur heldur áfram „Ég ákvað að innsigla hlutina í „vacuum“  poka. Það er til þess að tákna tilfinninguna um þrengslin og innilokunina sem konur í minni fjölskyldu lýsa. Við erum líka alltaf að reyna að pakka brjóstunum okkar inn í íþróttatoppa og þetta er í raun lúmsk þyngd pakkað inn í lítið rými.“

Ljósmyndir Svanhildar eru til sölu og tekur hún á móti pöntunum á Instagram og á tölvupóstfangið svanhildurgreta@gmail.com

instagram:@svanhildurgreta

©Svanhildur Gréta Kristjánsdóttir

©Svanhildur Gréta Kristjánsdóttir.

/sr.