Ljósmyndaskólinn – Banvæn brottvísun?

aa

Á Uppskeruhátíðinni sýndi Karítas Sigvaldadóttir, nemandi á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1, verkið Banvæn brottvísun?  Verk sem sannarlega á erindi í samtímanum enda málefni hælisleitenda aðkallandi úrlausnarefni og ofbeldi og réttindabrot stjórnvalda ýmissa landa gagnvart eigin þegnum því miður bláköld staðreynd.

Karítas vann verkið Banvæn brottvísun? fyrst í áfanganum Hugmyndavinna þar sem nemendur fengu það verkefni að vinna rannsóknarverkefni og vettvangurinn var Suðurnesin. Það var Spessi sem leiðbeindi nemendum í þeim áfanga.

Karítas endurgerði svo verkið í síðasta áfanga annarinnar, Lokaverkefni og sýndi það á Uppskeruhátíðinni i byrjun maí. Í áfanganum Lokaverkefni velja nemendur eitt af verkefnum námsársins, endurbæta það og útfæra fyrir sýningu á verkum nemenda á árlegri Uppskeruhátíð.

Tíðindakona bloggsins spurði Karítas nánar út í verkefnið.
Karítas segir: Hugmynd að verkinu „Banvæn brottvísun?“ spratt upphaflega í vinnustofunni Hugmyndavinna hjá Spessa. Þar  tók ég viðtöl og ljósmyndir af hælisleitendum  á Ásbrú og setti í handgerða bók. Ég fór síðan áfram með verkefnið og tók myndir og djúp viðtöl við fleiri einstaklinga og fjölskyldur. Búa þau öll í Ásbrú í Keflavík og eru frá Mið-Austurlöndum eða Afríku. Öll flúðu þau heimaland sitt vegna raunverulegrar lífshættu og öll eiga þau von á að verða vísað á brott frá Íslandi. Hafði þeim öllum verið hótað lífláti og beitt ofbeldi. Í sumum tilvikum hafði barn eða ættingi verið myrtur og allri fjölskyldunni hótað lífi í framhaldi. Ísland felur sig sífellt á bak við Dyflinnarreglugerðina og vill ekki horfast í augu við það að með brottvísun eru þau í raun að senda hælisleitendur út í opinn dauðann.

 

 

 

Eftirfarandi texti var hluti verksins.

Banvæn brottvísun?

Í Írak eru heiðursmorð framin á fólki sem er samkynhneigt

eða einstaklingum sem afneita trúarskoðunum sínum.

Í Túnis horfa yfirvöld framhjá alvarlegu ofbeldi á konum og börnum.

Í Sómalíu er körlum gefinn úrslitakostur, annað hvort að ganga til liðs

við hryðjuverkahópa og drepa í þeirra nafni eða að vera myrtir sjálfir.

Fjölskyldur og einstaklingar þurfa að flýja ofsóknir hryðjuverkahópa og

fara huldu höfði til að vernda líf barna sinni gegn ofbeldi og lífshótunum.

Þetta er raunveruleiki margra hælisleitenda.

Raunveruleiki sem þau neyðast til að flýja.

Á seinasta ári voru átta af hverjum tíu hælisleitendum neitað um hæli á Íslandi. Alls neituðu stjórnvöld 640 manns, þ.á.m. börnum, um öruggt umhverfi.[1]

Fólkið á þessum myndum bíður annað hvort í óvissu eftir svari við hælisumsókn eða á von á að vera vísað úr landi. Vísað úr landi út í opinn dauðann.

[1] Útlendingastofnun, „Tölfræði verndarsviðs árið 2018,“ www.utl.is/images/2018/Hælistölfræði/Allt_árið/Tölfræði_ársins_2018.pdf (Sótt 6. maí 2019).

©Kaja Sigvalda

 

 

 

 

 

 

©kajasigvalda

 /sr.