Ljósmyndaskólinn – Hulda Sif Ásmundsdóttir

aa

Okkur hjá Ljósmyndaskólanum finnst alltaf gaman að heyra hvað fyrrverandi nemendur eru að fást við. Hulda Sif Ásmundsdóttir er einn fyrrverandi nemenda en hún var nýlega að ljúka námi í ljósmyndun frá Listaakademíunni í Haag og tók í vetur þátt í stórri samsýningu í Þýskalandi. Við heyrðum í henni og spurðum hana út í námið sem hún var að ljúka, sýninguna og verkefnin sem hún er að fást við að loknu námi.

 

Við gefum Huldu Sif orðið: Ég útskrifaðist frá Konunglegu Listaakademiunni í Haag, Hollandi, síðasta sumar með BA í ljósmyndun og áherslu á documentary ljósmyndun sem þýðist eflaust sem heimildaljósmyndun.

Skólinn er gríðarlega stór og býður upp á allskyns listnám bæði til BA prófs, MA prófs og einnig Phd. nám í listum. 
Ljósmyndadeildin er stór og mjög metnaðarfull. Mögulegt er að velja um 2 mismunandi leiðir í náminu; „documentary“ eða „fiction“. Allir kennararnir við skólann eru starfandi ljósmyndarar, allir virkir í heimi ljósmyndunar og flestir þeirra eru að vinna að eigin langtímaverkefnum.

Við skólann er einnig boðið upp á sérstaka námsbraut; „part-time“ – braut. Námið þar hentar fyrst og fremst fólki sem er mögulega með annað nám á bakinu, vinnur mikið eða á fjölskyldu og hefur ekki tök á því að mæta alla daga í skólann frá 09.00-17.00. Þetta er fullt nám og gerð krafa til nemenda þessarar brautar um að geta unnið sjálfstætt og skilað sömu vinnu og þeir nemendur sem eru í fullu námi á hinum brautunum og eininga fjöldi námsins er sá sami.

Nemendur Ljósmyndadeildarinnar eru frá öllum heimshornum og að meðaltali útskrifast um 40 nemendur á hverju ári.

Uppbygging námsins er þannig að byrjað er að kenna nemendum grunninn í ljósmyndun, bæði tæknilega og sögulega. Allt námið helst í hendur frá A-Ö og mikilvægt er að ná góðum tökum á öllum þáttum frá upphafi. Á þeim fjórum árum sem námið tekur, fær maður að kynnast öllum hliðum greinarinnar – ljósmyndunar og svo fleiri listgreinum að auki. Mikil áhersla er einnig á hugmyndafræðilega þátt námsins. 
Á námstímanum fær maður smám saman meira frelsi til þess að gera það sem mann langar eða brennur fyrir, þó er alltaf skýr krafa um að geta útskýrt af hverju maður er að gera það sem maður gerir. Smá saman lærir maður að útskýra öll skrefin, hvort sem það er valið á myndavélinni eða þeim miðli sem þú notar til að miðla því sem þú vilt segja eða val á pappír til prentunar – öll þessi litlu skref sem liggja að baki verki.  Þú þarft að geta útskýrt af hverju þú velur þau. Öll skrefin í ferlinu eru val og mikilvægt er að vita af hverju maður tekur allar þessar litlu ákvarðanir því þær skipta allar máli.

Þegar kemur að lokaárinu þá eru flestir nemendanna komnir á þann stað að geta byggt upp verkefni sem spanna lengri tíma. Í hvaða átt þú ferð með það fer algjörlega eftir þér og þínum hugmyndum.

Ásamt lokaverkefni þarf einnig að skrifa lokaritgerð upp á u.þ.b. 10.000 orð. Hún þarf að fjalla um efni tengt því sem þú ert að gera, eða að minnsta kosti tengjast þemanu þínu.

 Í mínu tilfelli þá hafði ég verið að vinna mikið með feminískt þema; stöðu stúlkna og kvenna í nútíma samfélagi okkar og stöðu mæðra. 
Ég flutti sjálf til Hollands árið 2014 með fjölskyldu mína. Verandi tveggja barna móðir í þessu námi, búandi í útlöndum og gift manni sem vinnur og ferðast mjög mikið setti ég hlutina í samhengi fyrir mér. 
Það var svo vegna þess að ég hafði brennandi áhuga á að varpa ljósi á þessa hluti að ég fór smám saman að snúa vélinni í átt að sjálfri mér. 
Serían Motherhood” (2017) birtist í Glamour Iceland og svo núna nýverið í  Uncertain States Scandinavia Issue 09 og það var hún sem var sýnd á Dusseldorf Photoweekend núna fyrr í vetur. Ég vann þá seríu árið 2017 og myndaði þá mæður í Hollandi, Danmörku og á Íslandi.

Útskriftarverk mitt  Jafnvel lognið er hvasst, fjallar um ferðalag systur minnar inn í móðurhlutverkið en hún er greind með geðhvarfasýki og þráði það að verða móðir. Með mikilli og góðri hjálp tókst henni það og þessu ferli fylgdi ég eftir. Ég notaði íslenska náttúru og veðurfar sem myndlíkingu – til að lýsa geðhvörfum hennar og/eða ástandi hverju sinni. 
Einnig vildi ég frekar eiga samtöl við hana og sviðsetja ástand eða upplifun þegar þar átti við, frekar en að mynda hana þegar hún hafði það sem verst eða best. 
Ég hafði og hef enga löngun til þess að trana linsu minni inn í það ástand. 
Að mínu mati er það óþarfi og það er leið sem ég hef valið í minni vinnu. 
Verkefnið var frá upphafi til enda, samstarfsverkefni okkar systra sem ég er ótrúlega stolt af og þakklát fyrir.
Verkefnið samanstendur af ljósmyndaseríu, ljósmyndabók og videoverki.

Eftir útskrift þá fluttumst við fjölskyldan búferlum yfir til Kaupmannahafnar frá Haag í Hollandi. Við höfðum búið hér áður og þar sem það passar okkur best að búa á meginlandinu, þá var þetta besta leiðin.
Stuttu eftir að við fluttum hingað bauðst mér að vera með í samsýningu hjá Fotografisk Center.
  

Þar sýndi ég útskriftarverkið mitt; myndir á veggjum, ljósmyndabók og videoverk. 
Ég er afskaplega þakklát fyrir það tækifæri vegna þess að ég gat sýnt verkið mitt á alveg nýjan hátt, á allt annan máta en ég sýndi það á útrskriftarsýningunni í Hollandi.

Í þessu ferli fengum við öll sem sýndum á þessari sýningu svokallað “take over” á Instagram síðu Fotografisk Center sem bjó til nýja kontakta fyrir hvern og einn þátttakanda á samfélagsmiðlum. 

Uncertain States Scandinavia hafði samband við mig í kjölfarið af þessu öllu og vildi birta Motherhood portrettseríuna mína í blaði númer 9.  Uncertain States Scandinavia er hópur af ungum listamönnum sem varpa ljósi á listamenn og ljósmyndara frá Skandinavíu. Ég sló til og sé ekki eftir því vegna þess að blaðið sem ég fékk að taka þátt í var frumsýnt á Dusseldorf Photoweekend, samhliða sýningu þeirra listamanna sem voru með í blaðinu. 
http://ucsscandinavia.com/

 Þannig að eftir útskrift hef ég verið frekar heppin og fengið að sýna nýleg verk sem ég hef unnið síðastliðin tæp þrjú ár. 
Nú bý ég í Kaupmannahöfn og er að koma mér upp vinnustofu þar sem ég get vonandi haldið áfram að vinna að þeim verkefnum sem ég brenn fyrir. Ég hef hug á því að halda áfram að vinna með feminísk verkefni, segja sögur kvenna í allskyns aðstæðum sem mér þykir mikilvægt að varpa ljósi á hverju sinni.

Sjá www.huldasif.com
Hér að neðan má sjá myndir úr myndaröð hennar Móðurhlutverkið.

MÓÐURHLUTVERKIÐ

Mæður og móðurhlutverkið hafa löngum verið viðfangsefni listamanna og menningaráhugasinna, þó að hugmyndin um hina heilögu móður hafi breyst eru mæður oft kynntar sem fulltrúar staðalímynda. Móðir, dýrlingur, madonnan; sú sem ber ábyrgðina á barninu og heimilinu. Ég beini sjónum að mæðrum, stöðu þeirra í vestrænu samfélagi og hlutverki mæðra. Móðirin sem aldrei fær neina hvíld, spennan sem myndast þegar við erum að vernda börnin okkar; kenna þeim, líta eftir þeim og hlúa að. Barnið verður einhverskonar viðhengi, við erum föst í hlutverkum okkar sem mæður hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Hlutverkið er dásamlegt og það allra mikilvægasta en á sama tíma þvingandi. Með röð portretta reyni ég að fanga ákveðið augnablik og spennu sem lýsir alhliða tilfinningu móðurhlutverksins.

       

/sr.