Ljósmyndaskólinn – Myndir af verkum útskriftarnemenda í janúar 2019

aa

Þann 11. janúar 2019 opnaði sýning á verkum útskriftarnemenda Ljósmyndaskólans þetta árið en þau útskrifuðust þá eftir fimm anna nám við skólann, með Diplomu í skapandi ljósmyndun. Þetta voru þau Ásgeir, Pétursson,  Kamil Grygo, Helga Laufey Ásgeirsdóttir, Hjördís Jónsdóttir, Sonja Margrét Ólafsdóttir og Þórsteinn Sigurðsson.

Að vanda voru viðfangsefni þeirra í útskriftarverkunum afar fjölbreytt.

Verk Ásgeirs, Færeyingahöfnin á Grænlandi fjallar um bæ á Grænlandi sem byggður var upp fyrir um 100 árum af færeyskum sjómönnum sem stunduðu fiskveiðar við Grænland. Í  Benchmarks veltir Helga Laufey fyrir sér flæðandi kynhneigð karlmanna og vill opna huga fólks fyrir því að kynhneigð getur verið á rófi.Hjördís fjallar í Filtered um fegurðarstaðla og útlitsdýrkun vestræna heimsins. Aldrei hefur verið auðveldara að búa til eigin ímynd á samfélagsmiðlum og lifa samkvæmt uppskrift sem á að ávísa á hamingju og vellíðan. Í verkinu Eyja, er Kamil að fást við hvernig það er að vera innflytjandi á Íslandi og tilfinninguna sem fylgir þeirri aðstöðu og í öðru persónulegu verki, Rætur, skoðar Sonja hvernig við mótumst af staðnum sem við ölumst upp á og hvernig staður og landslag tengir fjölskyldu saman. Hún horfir á sína eigin móðurfjölskyldu þar sem fjórar kynslóðir kvenna eiga það sameiginlegt að hafa alist upp á sama stað. Þórsteinn hefur lagt áherslu á heimildaljósmyndun og gefur út bókverkið Juvenile Bliss. Þar fjallar hann um  tvær kynslóðir af ungu fólki í Reykjavík og gefur áhorfandanum innsýn í veröld þeirra.

Óskum við útskriftarhópnum innilega til hamingju með árangurinn og spennandi verður að sjá þau taka sér rými á hinum gróskumikla vettvangi samtímaljósmyndunar í framtíðinni.

Myndirnar sem fylgja færslunni tók  einn útskriftarnemendanna, Ásgeir Pétursson.