Ljósmyndaskólinn – Námskeið í bókagerð

aa

Viltu búa til þína eigin bók? Námskeið í bókagerð.

Námskeiðið hentar skapandi einstaklingum sem sem hafa áhuga á að binda inn ljósmyndir, teikningar, texta eða annað efni á persónulegan hátt og þannig að hvert eintak bókarinnar verði einstakt.

Kennt verður þrjú skipti,  fimmtudaginn 4. apríl, mánudaginn 8. apríl  frá kl.  18.00 – 21.00 og laugardaginn 13. apríl frá 13.00 – 18.00. 

Í námskeiðinu felst verkleg kennsla í einföldu bókbandi. Þátttakendur kynnast nokkrum tegundum bókbands og búa til sitt eigið bókverk, þar sem allt helst í hendur, bókband, efnisval og innihald bókarinnar.  Á fyrri hluta námskeiðsins, fimmtudag og mánudag, er farið í hvernig bækur eru límdar með kili og kápu og á laugardeginum verður kennt að handsauma bækur.

Þátttakendur koma með það efni sem þeir vilja birta í bókverki og fá ráðleggingar og leiðbeiningar varðandi uppsetningu. Í upphafi gera þátttakendur auðar bækur sem hægt er að líma texta eða myndir inn í.  Einnig er farið yfir hagnýt atriði varðandi prentun efnis sem hugsað er sem efniviður handgerðra bóka, t.d. með tilliti til þess að mynd/texti birtist rétt á síðu þegar bókin er bundin inn eða saumuð.

Innifalið í námskeiðsgjöldum er allt efni til bókagerðar s.s. pappír, bókbandspappi, efni til að gera bókakápur, nálar og tvinna og lím til bókbindingar og á staðnum verða öll þau verkfæri sem til þarf.

Kennarar: Ingibjörg Friðriksdóttir myndlistakennari og Orri Jónsson ljósmyndari.

Hámarsfjöldi er 10 þátttakendur.

Verð: kr. 28.500. Mögulegt er að kaupa gjafakort hjá Ljósmyndaskólanum sem hægt er að nota sem greiðslu upp í ýmis námskeið.

Til að sækja um námskeiðið, kaupa gjafakort eða til að fá frekari upplýsingar er hægt að skrifa tölvupóst á netfangið ljosmyndaskolinn@ljosmyndaskolinn.is eða að hringja í síma 5620623.

Bent er á að starfsmenntasjóðir stéttarfélaga veita gjarnan styrki til niðurgreiðslu á námskeiðsgjöldum.