Ljósmyndaskólinn – Opið er fyrir umsóknir um nám skólaárið 2018-2019

aa

Nú er opið fyrir umsóknir um nám næsta skólaár. Umsóknarfrestur er til 5. júní.

Markmið Ljósmyndaskólans er að kenna ljósmyndun og aðferðir við að beita tækninni á skapandi hátt, að auka veg ljósmyndunar á Íslandi og valmöguleika í menntun ljósmyndara með listsköpun að leiðarljósi.

Í Ljósmyndaskólanum er boðið upp á nám í skapandi ljósmyndun á tveimur námsbrautum.  Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1 , 60 Fein  og Námsbraut í skapandi ljósmyndun 2, 90 Fein.

Í ljósmyndun samtvinnast tæknilegir og listrænir þættir og er því áhersla lögð á kennslu í tækni sem varðar ljósmyndun til jafns við kennslu í aðferðum við listsköpun. Í náminu er áhersla lögð á að nemendur þroski með sér aðferðir við að beita ljósmyndatækninni á skapandi máta. Hljóta þeir þjálfun í að beita tækninni við eigin listsköpun og læra aðferðir til að þróa og halda utan um  hugmyndir sínar og vinnuferli. Einnig er kennd lista- og ljósmyndasaga og skyldar greinar. Nemendur fá æfingu í myndlestri, myndgreiningu og innsýn í kenningar og hugmyndafræði er varða skapandi greinar. Þessir grundvallarþættir eru allir hafðir að leiðarljósi í skipulagningu á námi beggja námsbrauta en áherslumunur er þó á námsframboði brautanna.

Á fyrri námsbrautinni er í fyrirrúmi að kenna á tæknina að baki ljósmyndun, aðferðir við hana sem og alla almenna myndvinnslu. Áhersla er á að nemendur beiti ljósmyndatækninni og aðferðum við myndvinnslu á skapandi máta.  Hljóta þeir þjálfun í að beita tækninni við eigin listsköpun og læra aðferðir til að þróa hugmyndir sínar og til að halda utan um hugmyndir sínar og vinnuferli.

Á seinni námsbrautinni er megináhersla á að nemendur kynnist fjölbreyttu litrófi listsköpunar og helstu birtingarmyndum samtímamyndlistar. Áhersla er lögð á að  þeir þrói og þroski hugmyndir sínar, áherslur og ætlanir með eigin myndsköpun.

Á námstímanum eru nemendur hvattir til gagnrýninnar og skapandi hugsunar, lögð er áhersla á að þeir temji sér öguð vinnubrögð og aukið sjálfstæði í verkum eftir því sem líður á námið. Stefnt er að því að nemendur verði færir um markvissa og persónulega framsetningu á myndverkum af ólíkum toga.

 

Inntökuskilyrði: Til að fá inngöngu á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1, þarf umsækjandi að hafa lokið stúdentsprófi eða öðru sambærilegu námi. Gerð er krafa um grundvallar tölvukunnáttu. Umsóknum skal fylgja ferilskrá og myndamappa/portfólía eða önnur verk sem endurspegla skapandi áherslur umsækjanda. 

Það að hafa lokið námi  á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1 eða sambærilegt nám forsenda þess að geta sótt um nám á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 2.

Myndamappa eða portfólía umsækjanda þarf að innihalda  að minnsta kosti 3-5 verk sem geta verið af ýmsum toga; ljósmyndir, teikningar, “collage”, hugmyndavinnubók, videó eða annað það sem endurspeglar skapandi áherslur umsækjanda. Athugið að hvert verk getur verið samsett úr 1-6 einingum, t.d. 2-6 ljósmyndum efða teikningum eða blöndu af  verkum sem unnin eru með ólíkri tækni. Hvert verk verður að skapa heild.

 

Allar upplýsingar um námið og fyrirkomulag þess er að finna á heimasíðu skólans.