Ljósmyndaskólinn – Sonja Margrét Ólafsdóttir sýnir í Skotinu

aa

Fimmtudaginn þann 11. apríl opnar Sonja Margrét Ólafsdóttir sýninguna Rætur í Skotinu, Ljósmyndasafni Reykjavíkur.

Sonja Margrét útskrifaðist úr Ljósmyndaskólanum í janúar 2019 en hafði áður lokið B.A. gráði í listfræði.

Í verkinu Rætur fjallar Sonja um æskuslóðir sínar, landslagið og fjölskyldu en hún er uppalinn á Flúðum í Hrunamannahreppi og af fjórðu kynslóð kvenna sem allar eiga það sameiginlegt að hafa stigið sín fyrstu skref því umhverfi. Umhverfi og landslag getur sannarlega haft áhrif á mótun manneskju með fjölþættum hætti eins og segir í texta sem fylgir sýningunni: Sjálfsmynd okkar er byggð á þeim rótum sem við skjótum í upphafi lífsferils okkar. Rætur veita plöntum festu í jarðveginum, sjá þeim fyrir næringu og tryggja að jurtin fjúki ekki burt. Við eldumst og þroskumst í takt við tímann og árstíðir sem koma og fara. Landslag og staðir hafa mótandi áhrif á sjálfsmynd okkar og eru þannig partur af sjálfinu.

Tilvísanirnar ljósmyndanna í verkinu Rætur eru margvíslegar en Jón Proppé segir eftirfarandi um þetta verk Sonju.  „Ljósmyndir Sonju Margrétar Ólafsdóttur eru blátt áfram og jafnvel örlítið hversdagslegar en hafa þó yfir sér einhverja óvænta dulúð: Hvar eru þessir staðir, hvaða fólk er þetta og hvað tengir myndirnar saman? Kveikjan að myndum Sonju er persónulegt ferðalag á æskuslóðirnar þar sem hún á enn fjölskyldu þótt hún hafi flutt burt. Myndirnar eru þannig tilraun til að rifja upp liðna tíma og um leið til að kynnast staðnum upp á nýtt.“

Sýning Sonju í Skotinu opnar kl 16.00 fimmtudaginn þann 11. apríl og hún stendur til 10. júní 2019.

http://borgarsogusafn.is/is/ljosmyndasafn-reykjavikur/syningar/sonja-margret-olafsdottir-raetur
https://www.sonjamargret.com/

Ljómandi skemmtilegur hliðarviðburður við sýningu Sonju verður svo þann 12. apríl, frá kl.13:00 til kl.17:00, kallast hann Elsku amma. Geta börn þá valið póstkort og sent kveðju með landleiðinni til ömmu eða einhvers sem þau þekkja af eldri kynslóðinni. Frímerki á staðnum.
Sjá: https://www.facebook.com/events/785235388524451/ Er viðburðurinn í tengslum við Barnamenningarhátið sem stendur 9.-14. apríl. Á meðan á hátíðinni stendur er ókeypis inn á Ljósmyndasafn Reykjavíkur fyrir fullorðna í fylgd með börnum.

/sr.