Dagana 1.- 4. febrúar verður Vetrarhátíð í Reykjavík og aragrúi spennandi viðburða í boði víðsvegar um höfuðborgarsvæðið þessa daga.
Safnanótt verður haldin föstudagskvöldið 2. febrúar 2018 en þá opna fjölmörg söfn dyr sínar og bjóða upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá frá klukkan 18:00 til kl 23.00. Lögð verður áhersla á að bjóða upp á óhefðbundna viðburði þetta kvöld og veita gestum nýja sýn á söfnin. Íbúar og gestir borgarinnar á öllum aldri geta notið Safnanætur fram eftir kvöldi sér að kostnaðarlausu. Frítt er í sérstaka Safnanæturstrætó á milli allra safnanna. Á Safnanótt fer fram Safnanæturleikur. Hægt er að taka þátt í leiknum með því að svara laufléttum spurningum og safna stimplum frá mismunandi söfnum sem þú heimsækir.
Föstudaginn þann 2. febrúar verður útskriftarsýning nemenda Ljósmyndaskólans sem nú stendur í Lækningaminjasafninu á Seltjarnarnesi, opin til kl. 23.00 sem hluti af Safnanótt.
Allir útskriftarnemendurnir verða á staðnum, bjóða upp á listamannaspjall, leiðsögn um sýninguna kl. 20.00 og 22.00 og heitt kakó verður einnig í boði. Tilboð verður á póstkortum.
Nú fer hver að verða síðastur að sjá sýninguna í Lækningaminjasafninu en henni lýkur sunnudaginn 4. febrúar. Nú á laugardag og sunnudag er sýningin opin frá kl. 12.00- 18.00.
/sr.