Ljósmyndun er fjölbreytilegt og margslungið listform

aa

 

Ljósmyndun er fjölbreytilegt og margslungið listform.

Sigríður Ólafsdóttir eða Sissa eins og hún er alltaf kölluð, er stofnandi Ljósmyndaskólans. Hún er einnig skólastjóri hans og hefur staðið þar í brúnni í hartnær tuttugu ár. Sissa er ljósmyndari og hefur unnið fjölbreytt verkefni í ljósmyndun á vettvangi atvinnu og eigin listsköpunar. Hún er félagsmaður í FÍSL, félagi íslenskra samtímaljósmyndara.

 Sissa, segðu mér af hverju stofnaðir þú Ljósmyndaskólann á sínum tíma?

„Ég lærði ljósmyndun út í Bandaríkjunum og það var fyrst þegar ég var komin í námið sem ég áttaði ég mig á því hvað það er hægt að gera ótrúlega mikið með ljósmyndunina og ég er enn að læra nýja hluti og uppgötva nýjar leiðir í ljósmyndun. Áður en ég byrjaði að læra var ljósmyndun fyrir mér helst blaðaljósmyndun og svo hefðbundnar portrettmyndir sem voru frekar svipaðar, allavega hér á Íslandi. Fljótlega eftir að ég kom heim úr námi byrjaði ég með lítil námskeið með það að markmiði að upplýsa aðra um alla þessa möguleika ljósmyndunar og til að opna augu fólks fyrir því hvað hún er fjölbreytt. Mér fannst svo margir vera í sömu sporum og ég hafði verið. Svo þróaðist þetta stutta námskeið í eins árs skóla þar sem markmiðið var að kenna grunninn í ljósmyndun og að gefa yfirsýn yfir það hvað hún væri fjölbreytt. Þar sem ég vissi að margir skólar kröfðust portfólíu þá var markmiðið líka að aðstoða fólk við að setja saman möppu til að geta sótt um þann skóla sem það vildi.“

Það hafa aldeilis orðið breytingar á skólanum síðan þetta var.

„Já, það má nú segja það. Námið hefur breyst á þessum árum sem liðið hafa. Árið 2009 fékk Ljósmyndaskólinn viðurkenningu menntamálaráðuneytisins sem sérskóli á framhaldsskólastigi en frá og með skólaárinu 2007–2008 hefur verið boðið upp á fimm anna fullt nám hjá okkur og hægt að ljúka 150 Fein einingum í skapandi ljósmyndun.

Við höfum svo núna í ár, enn verið að endurskipuleggja námið og þar er kannski helsta breytingin sú að við höfum skipt því upp í tvær námsbrautir í skapandi ljósmyndun. Námsbraut 1 sem er 60 Fein eininga braut og námsbraut 2 sem er 120 Fein eininga braut en nám þessara brauta er þó á grundvelli námsins sem við höfum áður boðið upp á hér við skólann. Það að hafa lokið námi á fyrri brautinni, eða sambærilegu námi, er forsenda þess að geta hafið nám á þeirri síðari.

Nám beggja námsbrautanna er skipulagt sem nám á fjórða námsþrepi, viðbótarnám eftir stúdentspróf og að loknu 150 Fein eininga námi við skólann fá nemendur diplómagráðu í skapandi ljósmyndun. Við leggjum nú eins og áður, mikla áherslu á að í ljósmyndun samtvinnast tæknilegir og listrænir þættir og að kennsla í báðum þáttunum er mikilvæg en áherslurnar á þessa tvo lykilþætti eru mismunandi eftir námsbrautunum. Á fyrri námsbrautinni er í fyrirrúmi að kenna á tæknina að baki ljósmyndun, aðferðir við hana sem og alla almenna myndvinnslu. Á seinni námsbrautinni er megináhersla á að nemendur kynnist fjölbreyttu litrófi listsköpunar og helstu birtingarmyndum samtímamyndlistar, fái að prufa sem mest og að gera tilraunir með miðilinn. Svo undir lok námsins ætlumst við til þess að þau hafi í gegnum það alltsaman rannsakað hvað þau langar að gera í framtíðinni, hafi rannsakað eigin ætlanir og markmið. Á síðustu önninni vinna nemendur viðamikið lokaverkefni og skrifa ritgerð. Á báðum námsbrautum er svo auðvitað kennd lista- og ljósmyndasaga, aðferðir við hugmyndavinnu og sköpun auk ýmissa annarra spennandi áfanga. Við leggjum áherslu á það í námsferlinu að nemendur öðlist leikni í að tjá sig um verkin sín og þeir hljóta þjálfun í því. Eins teljum við mikilvægt að nemendur kynnist ýmiskonar praktískum þáttum sem varða það að vera starfandi listamaður, eins og að gera ferilskrá, sækja um sýningarrými og þessháttar. Ég held að þessar breytingar á náminu séu góðar, flæðið í náminu verði betra og að það verði þar af leiðandi betra fyrir nemendur.“

Hvað finnst þér um ljósmyndun á Íslandi í dag?

„Það hefur mjög margt breyst hér heima síðustu ár og t.d. gaman að sjá hvað konum hefur fjölgað í greininni. Þær eru líka að fást við allskonar fjölbreytt verkefni; vinna fyrir tímarit og við sjálfstæð verkefni en áður var algengast að þær væru að vinna við portrett tökur í stúdíói. Svo hefur viðhorfið gagnvart ljósmyndun sem list mikið breyst. Fyrir 20 árum var frekar ólíklegt að einhver keypti ljósmynd sem listaverk og ég tala nú ekki um ef það var manneskja á myndinni en í dag er vel hægt að selja ljósmyndir sem list. Það vantar ennþá auðvitað upp á virðingu og viðurkenningu samfélagsins til ljósmyndunar sem listgreinar, svona til jafns við aðrar listir. Ég held að það þurfi að efla listkennslu í leikskólum og grunnskólum. Tel að ýmislegt myndi breytast með aukinni listmenntun barna og ef að þeim yrði í auknu mæli kennt að meta list og þekkja list. Við sjáum nú hvað hefur gerst í tónlistinni hér á Íslandi, hún er orðin stór grein í íslensku atvinnulífi og mikilvægur hlekkur í kynningu á landi og þjóð. Þessi staðreynd byggir á þrotlausu starfi tónlistarskólanna undanfarna áratugi og nú er verið að uppskera það starf með þessari grósku.

Ég held að ljósmyndina vanti enn sitt athvarf og það þarf að styðja við hana sem listmiðil með einhverjum hætti. Staða hennar sem listgreinar endurspeglast kannski meðal annars í því að það eru ekki nema 1-2 ljósmyndarar sem fá listamannalaun á ári, – en það hefur samt margt breyst t.d. síðan ég byrjaði með skólann. Ég vil frekar horfa á jákvæðu skrefin, þó við ferðumst á hraða snigilsins og horfa bjartsýnum augum til framtíðar. Ég tel að vegur ljósmyndarinnar eigi bara eftir að eflast og aukast.“

En er eitthvað sérstakt sem stuðlað hefur að viðhorfsbreytingu til ljósmyndarinnar?

„Þegar ég var að alast upp þá var helst að sjá ljósmyndir í blöðum og tímaritum og ég man t.d. eftir að ég hljóp oft niður til að ná í Sunnudagsmoggann og var svo ótrúlega spennt að sjá þessar flottu myndir og myndaseríur í blaðinu eins og t.d. myndirnar hans Raxa. Svo eftir því sem árin liðu þá auðvitað bættust fleiri goð í hóp þeirra sem maður sá myndir eftir og dáðist að. Það voru menn eins og Grímur Bjarnason, Sigurgeir, Guðmundur Ingólfs., Palli Stefáns. og fleiri. Ljósmyndir fóru svo smá saman að sjást víðar og á sýningum og svona. Svo held ég að núna síðustu árin megi ekki síst þakka dugnaði FÍSL, Félagi Íslenskra samtímaljósmyndara, fyrir þessa viðhorfsbreytingu en félagið hefur verið ötult við að standa fyrir sýningum og kynningu á ljósmyndinni sem miðli til listsköpunar. Þessi hópur af ljósmyndurum stendur þétt saman og er allt fólk sem kemur úr námi víða að og hefur þessa sterku og breiðu sameiginlegu sýn um ljósmyndina sem listmiðil. Svo má ekki gleyma Ljósmyndahátíðinni sem haldin er annað hvert ár. Allt þetta verður til að auka vitundarvakningu almennings um möguleika ljósmyndunar sem listgreinar. Það er mjög mikilvægt og þannig opnast líka möguleiki á því fyrir ljósmyndara að selja verk sín og að geta lifað af list sinni, að minnsta kosti að einhverju leyti … en það má auðvitað enn spýta í lófana varðandi það. Er ekki mikið til af ljósmyndum í safneign listasafna til dæmis.“

En aftur að Ljósmyndaskólanum. Hvað sérðu hann eftir svona 10 ár?

„Já, draumur minn er nú sá að í framtíðinni verði með einhverjum hætti boðið upp á B.A. nám í ljósmyndun hér á Íslandi. Það skiptir alveg gríðarlega miklu máli að nemendur okkar hafi tækifæri til að klára námið sitt hér heima, það er ekki á allra færi að fara erlendis í nám. Við eigum alveg ótrúlega mikið af hæfileikaríku listafólki til að kenna og svo getum við auðveldlega fengið listamenn og fyrirlesara víða að úr heiminum því landið heillar og allflestir segja nú bara „já takk“ við því boði að koma hingað og kenna. Það væri líka gaman ef hægt væri að bjóða upp á deild fyrir erlenda nema því mjög margir sækjast eftir að koma hingað til Íslands. En hvað sem öðru líður þá vona ég allavega að Ljósmyndaskólinn eigi eftir að eflast af visku og að hróður hans eigi eftir að aukast frekar. Held að styrkur hans liggi í því hve lítill hann er og þannig er hægt að sinna hverjum nemanda svo vel og svo einnig í því að kennarahópurinn er mjög fjölbreyttur hópur listafólks. Það er ýmislegt hægt að gera en þetta kostar auðvitað allt sitt. Skóli getur ekki verið gróðafyrirtæki og verður tæplega rekinn af skólagjöldum einum saman.“

Breytir ljósmyndun heiminum?

„Stórt er spurt … já hún breytir heiminum eða öllu heldur hefur áhrif því hún fræðir og vekur athygli á hlutum og málefnum og hún upplýsir okkur. Svo geymir hún líka menningu og minningar, það má ekki gleyma því.“

/sr.