“Það lofaði því enginn þegar við fæddumst að við fengjum að vera heilbrigð allt okkar líf”
Svanborg Björnsdóttir
1957-2015

 

Móðir er ein mikilvægasta manneskjan í lífi einstaklinga. Hún er stoð og stytta, alltaf til staðar -hún er kletturinn. En lífið er hverfult og á einu augabragði getur veröldinni  verið kippt undan okkur.

Verkið Mamma segir sögu mömmu minnar, Svanborgar Björnsdóttur, sem greindist með hinn illvíga MND hrörnunarsjúkdóm árið 2013. Hann lýsir sér þannig að hægt og rólega hættir líkaminn að hlýða og hreyfigetan minnkar smá saman þar til einstaklingurinn lamast, bæði útlimir sem og innri líffæri.

Sumarið 2015 hóf ég að mynda baráttu mömmu við þennan sjúkdóm. Þá var okkur  orðið ljóst að hún ætti ekki langt eftir. Mamma tók veikindunum með
miklu æðruleysi. Hún var alltaf glöð, kát og stutt í brosið og einlæga hláturinn hennar. Þrátt fyrir allt, var hún alltaf til staðar, hún var alltaf móðir mín þrátt fyrir minnkandi getu til daglegrar athafna. Persónuleiki hennar hélst óbreyttur fram til síðasta dags.

Mamma háði hetjulega baráttu við MND, hún kvartaði aldrei og tók öllu með jafnaðargeði þrátt fyrir að veikindin tækju sífellt meiri toll af henni. Hægt og
rólega minnkaði hreyfigeta hennar  og undir það síðasta gat hún aðeins hreyft höfuðið.

Mamma líkti veikindunum við það að vera föst í forarpitti, hún sendi líkamanum boð um hreyfingu  en gat ekki hreyft útlimina sama hvað hún reyndi. Þann 23. september 2015 kvaddi mamma okkur og hélt af stað í ferðalagið sitt.

Mamma var ekki aðeins móðir mín, hún var líka besta vinkona mín.

Sjúkdómurinn hennar varð það sem ég hataði mest því  hann var að taka frá mér það sem ég elskaði mest. En á sama tíma var hann hluti af mömmu og því sem hún var. Þess vegna þurfti ég að læra að elska það sem ég hataði mest.