Mannamyndir – Sýning Ljósmyndaakademíunnar að Hverfisgötu 71.

aa

 

unnamed

Sýningin Mannamyndir opnar að Hverfisgötu 71 þann 18. nóvember  kl. 17.00 og stendur til jóla.

Þar eiga portrett þau Guðmundur Jóhannesson, Ívar Brynjólfsson, Bára Kristinsdóttir, Guðmundur Ingólfsson, Ragnar Th. Sigurðsson, Sigurgeir Sigurjónssson og Spessi/Sigurþór Hallbjörnsson eða gömlu brýnin í bransanum, þeir ljósmyndarar sem lengst hafa þraukað eins og Spessi orðaði það þegar tíðindakona bloggsins sló á þráðinn til hans til að forvitnast um sýninguna. “Já hvað er nú málið með þessa sýningu, það er nú það” segir Spessi og hugsar sig um í dálitla stund. “Sko upphafið að þessu öllu má rekja til kaffiklúbbs nokkurra ljósmyndara, við köllum okkur Ljósmyndaakademíuna og við byrjuðum að hittast á Barónsstígnum, í BECO þegar  búðin var á Barónsstígnum. Við  hittumst þar á laugardagsmorgnum og drukkum gott kaffi og reyktum góða vindla, mikið af þeim… Svo þegar BECO  flutti inn á Langholtsveginn þá fylgdum við með. En svo kom að því að það þótti nú ekki hæfa að í búðinni væri þétt ský af vindlareyk þannig að þá færðum vð hittinginn á laugardagsmorgnum bara í stúdíóin okkar og ferðumst á milli þeirra, hittumst til skiptis hjá einhverjum meðlimi klúbbsins. Það var náttúrulega til þess að við gætum haldið áfram að reykja vindla….en nú eru allir hættir að reykja vindla eða bara hættir að reykja yfirhöfuð…en við drekkum ennþá kaffi. Hugmyndin að þessari sýningu kom upp hjá okkur í vor; að gera sýningu með portrettmyndum og okkur fannst það eitthvað svo gamaldags og fallegt að láta hana heita Mannamyndir. Í Ljósmyndaakademíunni eru elstu starfandi ljósmyndarar landsins, þeir sem hafa staðið allt af sér en einn úr upprunalega hópnum, hann Leifur Þorsteinsson er þó fallinn frá og ætli við tileinkum honum ekki bara sýninguna” segir  Spessi að lokum.

Sýningin er í gallerí Sigurgeirs og er opin þegar hann er við (eftir samkomulagi)

/sr.