Mynd mánaðarins úr myndaröð Helgu Nínu Aas – 101 shopkeepers

aa

 

Mynd mánaðarins að þessu sinni er úr myndaröð Helgu Nínu Aas -“101 shopkeepers”. Myndaröðin var lokaverkefni hennar við Ljósmyndaskólann og var hennar framlag á samsýningu þeirra 10 nemenda sem nú í lok janúar útskrifðuðust frá skólanum.  Það er Jón Sæmundur Auðarson sem rekur verslun og gallerí að Laugarvegi 29 í Reykjavík sem situr fyrir á þessari mynd.

“Ferðamenn á Íslandi eru nú næstum fjórum sinnum fleiri á ári en íbúarnir. Gamla miðbæjarstemningin í Reykjavík – með ósamstæðum húsum og fjölbreytilegu mannlífi, smáiðnaði, verslunum og listamönnum – er að víkja fyrir ferðamannaiðnaðinum. Gamli bærinn veitti skjól fyrir listamenn, rithöfunda, handverksmenn og hvers kyns smáverslanir, en nú eru gömlu búðirnar og vinnustofurnar að víkja fyrir hótelum, minjagripaverslunum og erlendum veitingahúsakeðjum.

Helga Nína hefur myndað síðustu fulltrúa hins gamla miðbæjarlífs og sýnir okkur kunnuglega staði sem nú virðast orðnir svolítið gamaldags. Portrett hennar vekja áleitnar spurningar: Hvað verður um menningu okkar? Hverju erum við að fórna í sókn eftir skjótfengnum gróða? Og hverjir munu hafa áhuga á að heimsækja okkur þegar hér verður ekkert lengur að sjá nema Hard Rock og Dunkin´ Doughnuts.”

Texti: Jón Proppé, úr sýningarskrá sýningarinnar.

Fleiri verk eftir Helgu Nínu má sjá hér á síðu skólans undir liðnum nemendaverk og á heimasíðu hennar. http://helganina.com