Námskeið og vinnustofur á vegum Ljósmyndaskólans

aa

Enn bætast við námskeið og vinnustofur.

Ljósmyndaskólinn stendur reglulega fyrir ýmsum námskeiðum og vinnustofum sem eru afar fjölbreytt og spanna vítt svið enda hugsuð fyrir almenning jafnt sem þá sem vilja dýpka þekkingu sína á ljósmyndun eða einstökum þáttum hennar.

Í janúar hefst t.d. 10 vikna námskeið í ljósmyndun fyrir 12- 16 ára unglinga. Nýverið gerði skólinn samning við Reykjavíkurborg sem felur í sér að unnt er að nota Frístundakort borgarinnar til greiðslu á námskeiðsgjöldum eða upp í hluta þeirra.

Eins hefst í janúar stutt námskeið í því að nota forritið Lightroom.  Verður þar farið í undirstöðuatriði skipulags við stafrænt myndasafn, framköllun og alla helstu grunnþætti er varða stafræna myndvinnslu.

Hin sívinsælu byrjendanámskeið, Ljósmyndun 1 eru á sínum stað og ýmislegt annað verður boðið uppá á vegum Ljósmyndaskólans fyrrihluta ársins 2018. Námskeiðin eru auglýst á heimasíðu skólans undir flipanum Námskeið.

Við bendum á gjafakort sem hægt er að kaupa hjá Ljósmyndaskólinn. Gilda þau sem greiðsla fyrir eða upp í námskeið og vinnustofur sem haldin eru á vegum skólans.

Auk námskeiða og vinnustofa sem skólinn stendur fyrir hýsir hann gjarnan námskeið á vegum annarra aðila. Má nefna hina árvissu vinnustofu Iceland Photography Workshop þar sem Einar Falur og Ragnar Axelsson leiða hópinn en þá þarf nú ekki að kynna nánar. Skráning á þá vinnustofu fer fram á heimasíðu PhotoXpeditions  Að þessu sinni verður vinnustofa þeirra RAXA og Einars Fals  haldin 5. – 13. ágúst 2018

Mynd með færslu tók Anna Ósk Erlingsdóttir en Anna er einmitt ein þeirra sem verður með vinnustofu á árinu. Hún mun stýra tveggja daga Fashion Editorial Workshop í ágúst 2018. Þar verður kennt á ensku.