Ljósmyndir Sonju Margrétar Ólafsdóttur eru blátt áfram og jafnvel örlítið hversdagslegar en hafa þó yfir sér einhverja óvænta dulúð: Hvar eru þessir staðir, hvaða fólk er þetta og hvað tengir myndirnar saman? Kveikjan að myndum Sonju er persónulegt ferðalag á æskuslóðirnar þar sem hún á enn fjölskyldu þótt hún hafi flutt burt. Myndirnar eru þannig tilraun til að rifja upp liðna tíma og um leið til að kynnast staðnum upp á nýtt. Við hugsum kannski til staða þar sem við sjálf höfum búið og reynum að tengja staði við minningar, ljúfar eða sárar. Umhverfi okkar, sérstaklega í æsku, mótar upplifanir okkar og líf. Sumum reynist auðvelt að flytja burt og sníða sér nýtt líf en fáir geta þurrkað alveg úr huga sér æskuslóðirnar og barnæskuna. Ævi okkar líður ekki bara ár frá ári heldur getur opnast milli skeiða svo fortíðin verður ljóslifandi. Staðir eru mikilvægir í þessu tilliti eins og allir þekkja sem hafa farið með öldruðum ættingjum heim í sveitina og heyrt endalausar sögur af ókunnugu fólki sem þó var náskylt. Sagan býr í landslaginu, hvort sem það eru íslendingasögur eða æskuminningar okkar sjálfra. Þannig fer Sonja með okkur á sínar æskuslóðir og við skynjum í hispurslausum myndunum tengsl hennar við staðina og fólkið. Venjulegur ferðamaður upplfir staði öðruvísi og myndirnar sem hann tekur eru hlutlausar yfirlitsmyndir sem segja enga sögu. Í minningunni eru það hins vegar smáatriðin sem teiknast fram og standa fyrir söguna.

 

Texti: Jón Proppé